Fréttir

MH-ingar í forritunarkeppni framhaldsskólanna

Þann 11. mars keppti lið frá MH í forritunarkeppni framhaldsskólanna sem Háskólinn í Reykjavík hélt. Lið MH keppti í svokallaðri Beta-deild og lenti í öðru sæti en liðið skipuðu Karl Ýmir Jóhannesson, Ómar Bessi Ómarsson og Tristan Orri Elefsen og kennari liðsins er Björgvin Friðriksson. Við óskum liðinu innilega til hamingju með árangurinn.

Góður árangur MH-inga í Almennu landskeppninni í efnafræði

22. Almenna landskeppnin í efnafræði fór fram í framhaldsskólum landsins þriðjudaginn 28. febrúar. Alls tóku 103 nemendur þátt, úr sex skólum. Sigurvegari landskeppninnar er Jón Hilmir Haraldsson, nemandi við MH, en hann hlaut 85 stig af 100 mögulegum. Auk þess urðu MH-ingarnir Tómas Böðvarsson í fjórða sæti og Jón Halldór Gunnarsson í áttunda sæti. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn. 13 efstu keppendum er boðið að taka þátt í úrslitakeppni sem verður haldin í Háskóla Íslands helgina 25.-26. mars næstkomandi og óskum við okkar nemendum góðs gengis í þeirri keppni.

Valvika

Þessa dagana eru nemendur að velja áfanga fyrir haustönn 2023. Í boði eru 173 áfangar fyrir allar brautir, fyrir utan 53 áfanga sem eru kenndir á ensku fyrir nemendur á IB braut. Val nemenda er skoðað eftir að valvikunni lýkur og út frá því eru teknar ákvarðanir um hvaða áfangar verða kenndir næsta haust. Það skiptir því miklu máli að velja rétt og velja það sem nemendur ætla sér að taka. Alltaf eru nokkrir nýir áfangar í boði og einnig eru nokkrir áfangar sem eru einungis kenndir á haustin sem og aðrir sem eru einungis kenndir á vorin. 

Áfangakynningar á Mikagarði

Í dag milli kl. 9:00 og 12:00 kynna kennarar áfangaframboð næstu annar. Nemendur eru hvattir til að kíkja við og skoða það sem í boði er.

Fylgdu okkur á Instagram

MH hefur haldið úti Facebook síðu í mörg ár, eins og sést hér neðarlega vinstra megin á heimasíðu skólans. Sú síða hefur sýnt allt það helsta sem er í gangi í skólalífinu. Núna erum við að stíga okkar fyrstu skref á Instagram líka. Markmiðið er að ná til allra sem vilja fylgjast með því helsta sem er í gangi í skólanum. Þetta er mikið og krefjandi verkefni og erum við spennt að takast á við það og ætlum að gera okkar besta. Endilega fylgið okkur á Instagram.

Kynning á áfangaframboði haustannar 2023

Það er ekki seinna vænna en að kynna til leiks áfangaframboð haustannar 2023. Þar kennir ýmissa grasa, margir gamlir og góðir áfangar eru á sínum stað og ýmsir nýir líta dagsins ljós. Föstudaginn 3. mars verða áfangakynningar á Miklagarði þar sem kennarar kynna sínar greinar og allt það sem verður í boði næsta haust. Við hvetjum ykkur öll til að kíkja við á Miklagarði milli 9:00 og 12:00 og sjá það sem í boði er. Hver veit nema einhver óvæntur glaðningur verði á boðstólum.

Vetrarfrí - Winterbreak

Föstudaginn 24. febrúar er vetrarfrí í MH hjá nemendum og öllu starfsfólki. Njótum frísins og hittumst hress á mánudaginn. Friday, February 24th is a winter break in MH and we hope you all enjoy the time off and we will see you again on Monday.

Frábær árangur á Spænskuhátíð 2023

MH og MÍT unnu til verðlauna á Spænskuhátíð 2023: MH/MÍT-nemar fá vikudvöl við háskólann Alcalá de Henares í Madrid, námskeið og uppihald. Um var að ræða myndbandasamkeppni þar sem þemað var 5. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Jafnrétti kynjanna. Nemandinn frumsamdi lag og texta sem tengdist efninu. Nemendur MH sem útbjuggu veggspjöld unnu einnig til verðlauna og fá að launum styttri heimsókn við sama skóla í vinning og nemandi MH vann spurningakeppni sem var hluti af hátíðinni.

Miðannarmat í Innu

Lagningardagar tókust mjög vel og þökkum við öllum sem lögðu hönd á plóg. Sérstaklega viljum við þakka lagningardagaráði fyrir alla þá vinnu sem þau lögðu í þetta - takk öll fyrir skemmtilega daga. Í dag opnaði miðannarmat í Innu sem gefið er nemendum fæddum 2006 eða seinna. Upplýsingar um miðannarmatið má lesa í pósti til aðstandenda og hér á heimasíðunni.

Lagningardagar

Í dag er fyrsti í lagningardögum. Nemendur eru mættir í hús til að taka þátt í dagskrá dagsins þar sem ýmislegt er í boði. Kórinn er með veitingasölu og fer ágóðinn af þeirri sölu í ferðasjóð kórsins. Kórinn stefnir á vorferð út á land í lok apríl og er því um að gera að styrkja þau til fararinnar.