Fréttir og tilkynningar

Gervigreind og Delta Kappa Gamma

30.10.2024
Við fengum skemmtilega heimsókn í gær frá félagi kvenna í fræðslustörfum á Íslandi, Alfadeild í Delta Kappa Gamma. Þær voru mættar til að hlýða á Geir Finnsson enskukennara fjalla um gervigreind í skólastarfi. Erindið var byggt á reynslu hans á notkun gervigreindar sem enskukennari í tveimur framhaldsskólum. Hann útskýrði gervigreind, hvers vegna hún er farin að láta svo mikið á sér bera og hvernig hægt sé að nota hana til góðs, bæði fyrir kennara og nemendur. Einnig ræddi hann þær áskoranir sem blasa við skólasamfélaginu og í lokin voru mjög góðar umræður, þar sem reynsuboltar í skólastarfi til áratuga sögðu sínar skoðanir. Skemmtileg blanda af nýja og gamla tímanum.

Haustfrí

24.10.2024
Það er haustfrí í MH og skrifstofa skólans er lokuð frá og með fimmtudeginum 24. október til og með mánudeginum 28. október. Við vonum að öll njóti þess að vera í fríi og komi úthvíld til baka til að klára síðustu vikur annarinnar. Próf hefjast 2. desember og ef nemendur þurfa að sækja um breytingu á próftöflu eða sérúrræði í prófum þarf að gera það fyrir 11. nóvember.

Valviku lýkur í dag

14.10.2024
Í dag er síðasti dagur til að setja inn val fyrir vorönn. Allar upplýsingar um valið má finna á heimasíðunni undir "Valvika".

Gestir í heimsókn

07.10.2024
Í dag og næstu daga mun samfélagslögreglan vera í heimsókn í MH og heimsækja alla lífsleiknihópa nýnema. Lögreglan mun auk þess vera á rölti í frímínútum og ræða við aðra nemendur sem vilja heyra í þeim og ræða málin.

Valið hefst í dag

04.10.2024
Opnaðu hefur verið val nemenda fyrir næstu önn. Af því tilefni er valkynning á sal milli 10 og 13 í dag þar sem nemendur geta komið og skoðað og kynnt sér áfangaframboð næstu annar. Það er úr vöndu að ráða og hvetjum við nemendur til að koma og skoða og ræða við kennara og samnemendur um námið og hvað skal læra. Valinu lýkur mánudaginn 14. október.

MH-ingar í Sainte-foy-la-Grande

27.09.2024
Fréttir hafa borist frá MH-ingunum sem eru á faraldsfæti í Frakklandi ásamt Sigríði Önnu frönskukennara. Þau taka þátt í Erasmus-verkefni og eru stödd í bænum Sainte-foy-la-Grande. Allt hefur gengið vel, þau hafa fengið góðar móttökur í skólanum og svo sýndi borgarstjórinn þeim ráðhúsið. 

Töfrateningar

27.09.2024
Helgina 16. og 17. september fór Íslandsmótið í töfrateningum fram í MH þar sem útskrifaðir MH-ingar voru meðal mótshaldara. Alls kepptu 42 þátttakendur á mótinu en keppt var í 15 mismunandi greinum. Óskar Pétursson stóð uppi sem sigurvegari í hefðbundna 3x3 kubbnum en hann leysti kubbinn að meðaltali á 8,48 sekúndum. Ótrúleg leikni þarna á ferð.

Fylgdu okkur á Instagram @menntaskolinn_hamrahlid