Áætlun gegn kynferðislegri áreitni, kyndbundinni áreitni og ofbeldi

Viðbragðsáætlun vegna kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis

Eftirfarandi hugtök eru skilgreind í lögum nr. 150/2020:

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Einstaklingur sem verður var við kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi er hvattur til þess að tilkynna það til náms- og starfsráðgjafa, sálfræðings, trúnaðarmanns eða skólastjórnenda. Einnig er hægt að tilkynna með því að smella á tilkynningarhnapp skólans fyrir EKKO-mál.
Minnt er á tilkynningaskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum úr Barnaverndarlögum nr. 80/2002 17. gr.

Nemendur
Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot af ofangreindu tagi fer eftirfarandi ferli í gang innan skólans:

  • Náms- og starfsráðgjafi, sálfræðingur og stjórnendur hittast og skipuleggja næstu skref.
  • Málið er skoðað og rætt við hlutaðeigandi.
  • Skólayfirvöld skulu aðstoða málsaðila við að leita sér sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila.
  • Haft er samband við forsjáraðila sé nemandi undir 18 ára aldri og þeir hafðir með í ráðum.
  • Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur og ráðgjafar skólans vera viðkomandi til aðstoðar.
  • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar málsaðilum.
  • Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
  • Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.

Ekki er aðhafst í máli nema sá sem verður fyrir áreitni eða ofbeldi (og forsjáraðilar eftir því sem við á) sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) verður máli vísað til lögreglu.

Starfsfólk
Ef upp kemur grunur um brot af ofangreindu tagi meðal starfsfólks skal tilkynna það til skólastjórnenda og/eða trúnaðarmanna. Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot fer eftirfarandi ferli í gang:

  • Skólastjórnendur og/eða trúnaðarmaður skipuleggja næstu skref málsins.
  • Skoða skal málið með því að ræða við aðila þess og eftir atvikum samstarfsfólk.
  • Skólayfirvöld skulu aðstoða málsaðila við að leita sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila.
  • Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur/trúnaðarmaður vera viðkomandi til aðstoðar.
  • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar málsaðilum.
  • Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
  • Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.

Ekki er aðhafst í málinu nema þolandi sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum að ræða (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) verður máli vísað til lögreglu.

Viðurlög

Viðurlög við broti eru samkvæmt skólareglum og lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Gerandi verður látinn axla ábyrgð og getur fengið áminningu, verið fluttur til í áfanga/starfi eða verið vikið úr skóla/sagt upp.

Síðast uppfært: 24. september 2024