Lagningardagar eru um miðjan febrúar. Þá liggur hefðbundin kennsla niðri í tvo daga og NFMH skipuleggur námskeið, fyrirlestra og aðra viðburði í samráði við kennara og stjórnendur. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku kennara og nemenda í dagskrá lagningardaga.
Oftast er það þannig að nemendur safna punktum á hverjum viðburði og koma þeir í stað mætingar þessa tvo daga. Allir byrja með 5 fjarvistarstig en skila inn þartilgerðu stimpluðu mætingaspjaldi til að fá fjarvistarstigin frádregin.
Nokkur hefð hefur skapast um hluta dagskrárinnar eins og t.d. að halda skólaþing með aðkomu nemenda og kennara. Skólaþingið fjallar um málefni sem ákveðin eru í samráði við nemendastjórn og starfsfólk hverju sinni. Skólaþingið er með þjóðfundarsniði og niðurstöðum þess safnað saman og kynntar í skólastjórn og skólanefnd.
Ýmsar fleiri uppákomur eru og allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu MH og hjá nemendafélaginu.