Jafnréttisáætlun Menntaskólans við Hamrahlíð byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (hér einnig nefnd jafnréttislög). Jafnréttisáætlunin á annars vegar við um skólann sem vinnustað og hins vegar skólann sem menntastofnun. Skólinn sem vinnustaður tryggir starfsfólki réttindi sem kveðið er á um í lögunum og sem menntastofnun tryggir hann réttindi nemenda.
Menntaskólinn við Hamrahlíð leggur áherslu á að skapa öllu starfsfólki og nemendum umhverfi þar sem samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu og fólki er ekki mismunað á grundvelli kyneinkenna, kynvitundar, kyntjáningar, kynhneigðar, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs eða annarra þátta. Við ákvarðanatöku og stefnumótun í skólanum skal ávallt gætt að jafnréttissjónarmiðum og athugað hvaða áhrif ákvörðun hefur á mismunandi hópa svo sem konur, karla og þau sem ekki falla að kynjatvíhyggjunni, t.d. kynsegin fólk. Í skólanum skal unnið gegn hefðbundnum kynjaímyndum sem og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. Hegðun á borð við kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni er ekki liðin.
Jafnréttisáætlunin inniheldur stefnumótun skólans og aðgerðaáætlun. Í henni eru markmið skólans í jafnréttismálum skilgreind, tilgreint hvernig unnið skal að þeim og hver ber ábyrgð á aðgerðum. Jafnréttisáætlunin er endurskoðuð á þriggja ára fresti og nýjasta útgáfan birt á heimasíðu skólans.
Við skólann starfar jafnréttis- og samskiptaráðgjafi sem heldur utan um endurgerð jafnréttisáætlunar og eftirfylgni hennar. Viðkomandi tilheyrir jafnréttisnefnd sem valið er í úr hópi starfsfólks eftir auglýsingu. Ákjósanlegt er að nefndin sé skipuð þremur einstaklingum af sem flestum kynjum.
Skýrsla um aðgerðir í jafnréttismálum birtist í sjálfsmatsskýrslu skólans sem er aðgengileg á heimasíðu hans. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi og skólastjórnendur bera ábyrgð á birtingu hennar.
Launajafnrétti
Starfsfólki, óháð kyni, skal greiða jöfn laun og allir skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Sama gildir um hvers konar frekari þóknun, beina og óbeina, hvort sem hún felur í sér hlunnindagreiðslur eða er greidd með öðrum hætti. Einnig skal allt starfsfólk njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun mega ekki fela í sér kynjamismunun.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Jafnlaunamarkmið MH er að starfsfólk fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
|
Úttekt á jafnlaunakerfinu fer fram árlega hjá viðurkenndri vottunarstofu, byggð á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012, sbr. lög nr. 56/2017.
|
Rektor / stýrihópur um jafnlaunakerfi.
|
Árlega
|
Útrýma óútskýrðum launamun umfram 1,5%
|
Rýna launagreiningar og bregðast við frávikum skv. verklagsreglu 4.5.3
|
Rektor / stýrihópur um jafnlaunakerfi.
|
Árlega
|
Starfsfólk
Laus störf í Menntaskólanum við Hamrahlíð skulu standa opin fólki af öllum kynjum. Leggja skal metnað í að jafna kynjahlutfall innan faggreina og meðal stjórnenda. Stjórnendur skulu tryggja að starfsfólk óháð kyni njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Starfsfólk óháð kyni hafi jafna möguleika á störfum og stöðuhækkunum við skólann, að teknu tilliti til þess að jafna þurfi kynjahlutfallið í starfsmannahópnum og meðal stjórnenda.
|
Sæki tveir jafnhæfir einstaklingar um starf við skólann skal velja einstakling af því kyni sem hallar á.
|
Rektor.
|
Alltaf.
|
Halda skal saman yfirliti um auglýst störf, umsækjendur og ráðningar og þær upplýsingar greindar eftir kyni. Tölfræðin skal geymd í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro, með auglýsingum um laus störf.
|
Konrektor.
|
Alltaf.
|
Kyngreindar upplýsingar um starfsfólk og stjórnendur skal taka saman og birta í sjálfsmatsskýrslu skólans.
|
Konrektor.
|
Fyrir birtingu sjálfsmatsskýrslu ár hvert.
|
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Menntaskólinn við Hamrahlíð leitast við að skapa fjölskylduvænt vinnuumhverfi enda hefur verið sýnt fram á að slíkt leiði til aukinnar starfsánægju, bættrar frammistöðu, aukinna afkasta og minni starfsmannaveltu. Stjórnendur skulu gera starfsfólki óháð kyni kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Bæði þarf að taka tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa skólans. Starfsfólki skal auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna, s.s. veikinda barna eða annarra fjölskyldumeðlima.
Áhersla er lögð á að starfsfólk óháð kyni getur þurft að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs og að vera heima hjá veiku barni. Ekki er litið á það sem mismunun að tekið sé tillit til starfsfólks vegna þungunar og barnsburðar. Gæta þarf sérstaklega að stöðu hinsegin fólks, það skal fá svigrúm til jafns við aðra til að sinna fjölskylduábyrgð óháð fyrirframgefnum hugmyndum um kynhlutverk þeirra.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Vinnutími sé sveigjanlegur.
|
Ábyrgð á undirbúningsvinnu er hjá kennurum. Þeir ákveða hvar og hvenær hún fer fram.
|
Rektor.
|
Alltaf.
|
Taka tillit til töfluóska kennara sé þess kostur.
|
Rektor / töflusmiðir
|
Alltaf.
|
Starfsfólk óháð kyni sé hvatt til að nýta fæðingar- og foreldraorlofsrétt.
|
Starfsfólk í þessari stöðu er upplýst um réttindi sín.
|
Rektor.
|
Eftir þörfum.
|
Starfsfólki óháð kyni sé sýndur skilningur á fjölskylduábyrgð.
|
Starfsfólk mætir skilningi af hálfu stjórnenda þegar upp koma erfiðar eða óviðráðanlegar aðstæður í einkalífi.
|
Rektor.
|
Þegar upp koma erfiðar eða óviðráðanlegar aðstæður í einkalífi starfsfólks.
|
Starfsmannafélagið hafi í huga að hafa fjölbreytta viðburði og sé meðvitað um fjölbreyttar aðstæður og áhuga starfsfólks.
|
Stjórn starfsmannafélagsins heldur utan um viðburði á sínum vegum og skoðar hversu vel þeir henta ólíkum áherslum starfsmannahópsins.
|
Stjórn Starfsmannafélags MH.
|
Alltaf.
|
Stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um áskoranir í samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
|
Stjórnendur og starfsfólk fær fræðslu um áskoranir í samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og leiðir til þess að bregðast við þeim.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Fyrir lok vorannar 2025.
|
Virðing í samskiptum og öruggt skólasamfélag
Allt starfsfólk og allir nemendur eiga rétt á því að komið sé fram við þau af virðingu. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum og skal gera öllum sem tilheyra skólasamfélaginu það ljóst. Skólinn skal leita allra leiða til að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni, til dæmis vegna kyneinkenna, kynvitundar, kyntjáningar eða kynhneigðar.
Ef kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni hefur átt sér stað skal unnið eftir áætlun skólans um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem er aðgengileg á heimasíðu skólans. Í áætluninni þarf að vera skýrt hvert skal leita með mál sem varða kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni, einnig ef yfirmaður eða kennari á í hlut. Ef stjórnandi eða kennari er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði eða námsumhverfi kæranda.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Skólinn hafi skýra stefnu í því hvernig tekið er á málum ef upp kemur EKKO-mál. Stjórnendur og starfsfólk sé upplýst um stefnuna.
|
Móta skýrari viðbragðsáætlun og kynna stefnuna á starfsmannafundi og fyrir nýnemum í lífsleikni.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi / EKKO-teymi skólans.
|
Fyrir lok vorannar 2025.
|
Starfsfólk fái fræðslu um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni.
|
Erindi á starfsmannafundi.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Fyrir lok vorannar 2026.
|
Allir nýnemar fái sérstaka fræðslu um virðingu í samskiptum og samböndum.
|
Nýnemar fá jafnréttis- og samskiptafræðslu í lífsleikni á haustönn sem er sérstaklega útfærð eftir þörfum ár hvert.
|
Fagstjóri í lífsleikni / jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Á hverri haustönn.
|
Öll útskriftarefni fái sérstaka fræðslu um virðingu í samskiptum og samböndum.
|
Útskriftarefni fá jafnréttis- og samskiptafræðslu í lífsleikni útskriftarnema sem er sérstaklega útfærð eftir þörfum ár hvert.
|
Fagstjóri í lífsleikni / jafnréttis- og samskiptaráðgjafi
|
Alltaf þegar lífsleikni útskriftarnema er kennd.
|
Menntun og skólastarf
Menntaskólinn við Hamrahlíð skal flétta jafnréttisáherslur saman við menntun og skólastarf ásamt því að veita bæði nemendum og kennurum sérstaka jafnréttisfræðslu.
Kennarar skulu fá reglulega jafnréttisfræðslu sem styður við jafnrétti í störfum þeirra, þ.m.t. viðmót þeirra til nemenda og val á kennslu- og námsefni. Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Kennarar, stjórnendur, stoðþjónusta og annað starfsfólk skólans skal haga störfum sínum þannig að þau stuðli markvisst að fordómalausu umhverfi fyrir alla nemendur. Í kennslu- og námsefnisvali skal draga fram fjölbreytileika mannlífsins og vinna gegn sögulegum kynjahalla og fordómum í námsefni. Viðmót gagnvart nemendum skal vera meðvitað, t.d. þarf að varast að gera ráð fyrir ákveðinni kynhneigð eða kynvitund nemenda. Starfsfólk skólans þarf sömuleiðis að vera meðvitað í samskiptum við foreldra og gæta þess að útiloka ekki annað foreldrið á grundvelli kyns. Mikilvægt er að litið sé á alla forráðamenn sem jafngilda í foreldrasamstarfinu.
Brýnt er að vinna gegn staðalímyndum tvíhyggjunnar um rótgróin hlutverk og eðli kvenna og karla. Í starfi skólans skal lögð áhersla á að búa öll kyn undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi, og vinna skal gegn fyrirframgefnum viðhorfum um náms- og starfsval út frá kyni. Af þessu leiðir að nemendur, óháð kyni, skulu hljóta fræðslu og ráðgjöf um sömu störf í allri náms- og starfsfræðslu.
Nemendur sem hafa áhuga á að afla sér sértækrar þekkingar í kynjafræði skulu hafa kost á því. Þá skal jafnréttisfræðsla vera ein af meginstoðum lífsleiknikennslu nýnema. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi allra nemenda.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Starfsfólk skólans geti mætt fjölbreyttum nemendahópi á upplýstan og virðingarverðan hátt.
|
Starfsfólk fær ráðgjöf eftir þörfum.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Alltaf.
|
Sjónarhorn jafnréttis verði innleitt í kennslu allra námsgreina skólans.
|
Kennarar fá vettvang til þess að rýna í (og ræða) kennslubækur og kennsluefni með jafnréttisgleraugum.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Fyrir lok haustannar 2024.
|
Nemendur fá vettvang til þess að rýna í (og ræða) kennslubækur og kennsluefni með jafnréttisgleraugum.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Fyrir lok vorannar 2025.
|
Félagsstarf nemenda
Nemendafélag Menntaskólans við Hamrahlíð (NFMH), Hinseginfélagið BUR, Femínistafélagið Embla, sem og önnur félög nemenda skulu fá stuðning frá jafnréttis- og samskiptaráðgjafa til að stuðla að jafnrétti í félagslífi nemenda. Gæta skal að því sérstaklega að fjölbreyttur nemendahópur komi fram fyrir hönd skólans, þ.m.t. nemendur af öllum kynjum.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Skólinn styður við áherslur jafnréttis og virðingar í samskiptum í skipulögðu félagslífi nemenda.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi fundar með nýrri stjórn og ráðum við upphaf skólaárs með það að markmiði að ramma inn jafnréttismálin og tryggja góð samskipti og upplýsingaflæði.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Árlega, við upphaf haustannar.
|
Stjórn og nemendaráðum býðst ráðgjöf í jafnréttis- og samskiptamálum í störfum sínum á skólaárinu. Auk þess fylgist jafnréttis- og samskiptaráðgjafi grannt með störfum stjórna og ráða og hefur frumkvæði að samtali ef þörf krefur.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Alltaf.
|
Nemendur sem koma fram á vegum skólans endurspegli fjölbreytileika nemendahópsins.
|
Nemendur sem eru fengnir til þess að kynna skólann, t.d. á nýnemakvöldum og skólakynningu, er fjölbreyttur hópur kynja.
|
Félagsmála- og forvarnafulltrúi / skipuleggjendur viðburða.
|
Alltaf.
|
Eftirfylgni
Jafnréttisnefnd og skólastjórnendur fylgja því eftir að unnið sé samkvæmt jafnréttisáætlun skólans. Árangur aðgerðaáætlunar skal yfirfarinn árlega og þriðja hvert ár skal áætlunin endurskoðuð. Þá skal meta stöðu aðgerða og birta niðurstöður í sjálfsmatsskýrslu á vef skólans. Niðurstöður eru einnig kynntar á starfsmannafundi ef ástæða þykir til.
Markmið
|
Aðgerð
|
Ábyrgð
|
Tímarammi
|
Jafnréttisáætlunin sé í þróun og skili árangri.
|
Jafnréttisáætlun endurskoðuð og metin á þriggja ára fresti.
|
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Þriðja hvert ár, við lok haustannar.
|
Jafnréttiskafli sjálfsmatsskýrslu er m.a. skrifaður út frá markmiðum jafnréttisáætlunar: Var henni fylgt á liðnu skólaári? Hvað var gert, hvað hefur áunnist og hverju er ábótavant?
|
Konrektor / jafnréttis- og samskiptaráðgjafi.
|
Fyrir birtingu sjálfsmatsskýrslu ár hvert.
|
Jafnréttisáætlun MH hlaut fyrst samþykki Jafnréttisstofu 6. janúar 2020.
Áætlun fyrir árin 2024-2027 var samþykkt af Jafnréttisstofu 24.09.2024