Miðgarðsormurinn

Miðgarður er opið rými á 2. hæð skólans. Þar býr langur og skrautlegur prjónaður ormur sem kallast Miðgarðsormurinn. Hann stækkar stöðugt því á öðrum enda hans hanga prjónar og öllum er frjálst að grípa í þá. Markmiðið er að hann nái hringinn í kringum Miðgarð og bíti í skottið á sér líkt og nafni hans í norrænu goðafræðinni gerði. Mögulega er stutt í að það markmið náist en vorið 2024 reyndist hann 85 metra langur!

Upphafið

Saga ormsins spannar nú nokkra áratugi. Forveri þess orms sem nú prýðir Miðgarð var prjónaður á árunum 1985-1989 en af óljósum ástæðum hvarf hann. Áhugasamir nemendur, Sigríður Ásta Árnadóttir og Silja Traustadóttir, endurvöktu hugmyndina um orminn langa og hófu prjónaskapinn á árunum 1990-1994. Þær komu með garnafganga að heiman en lentu helst í vandræðum með að útvega fyllingarefni. Af þeim sökum stofnuðu þær „ormasjóð“ og velviljaðir nemendur lögðu reglulega 50 kr. í sjóðinn svo hægt væri að kaupa tróð.

Hlutverk og ferðalög ormsins

Ormurinn er langt í frá eins ógnvænleg skepna og hinn forni nafni hans. Hlutverk hans hefur þróast í gegnum árin og nú má segja að hann sé eitt aðaleinkennismerki NFMH. Hann bregður sér oft í hlutverk lukkudýrs, til dæmis þegar hann fylgir MH-ingum í Útvarpshúsið til að taka þátt í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna sem RÚV stendur fyrir. Vorið 2024 mætti hann í sjónvarpssal, bæði í undanúrslita- og úrslitaþátt keppninnar, og íslenskukennararnir Rósa Maggý Grétarsdóttir og Hildur Ýr Ísberg prjónuðu „GETTU BETUR 2024“ í orminn, handvissar um sigur MH. Það reyndist happadrjúgt því MH vann Hljóðnemann það ár, eftir margra ára bið. Þær stöllur kenndu valáfangann Húslestur og hannyrðir þessa önn og nemendur hans sinntu orminum vel, prjónuðu við hann, stoppuðu í göt og fylltu hann með tróði. Hann hefur því ekki litið betur út í mörg ár.

Ormurinn hefur ekki bara ferðast í Útvarpshúsið. Hann reyndi að minnsta kosti einu sinni að komast inn í Alþingishúsið en var synjuð innganga. Nemendur ætluðu að sitja á þingpöllum og prjóna bandorm á meðan þingheimur greiddi atkvæði um frumvarp sem kallað er bandormur, í tengslum við fjárlög haustið 1992. Þingverði fannst það ekki góð hugmynd og rak þau öfug út.

Fleiri ferðalög og hlutverk eru á ferilskrá ormsins. Silja, önnur þeirra sem hóf að prjóna orminn, tók hann eitt sinn með sér í sumarvinnu í sumarbúðir skáta við Úlfljótsvatn og má ætla að hann hafi notið þeirrar dvalar. Einnig kom sér vel fyrir orminn að vera valinn til að leika í leiksýningu MH, Blóði og drullu vorið 1994, en þá var prjónað við hann á öllum æfingum og sýningum.

Orminum rænt

En ormurinn hefur líka eignast óprúttna óvini. Honum var rænt eitt bernskuvorið og lausnargjalds var krafist. Ekki hefur verið upplýst hverjir ræningjarnir voru og ekki þótti við hæfi að greiða hið lágkúrulega lausnargjald, ryðgaðan nagla. Málið leystist þannig að ormurinn dúkkaði upp á busaskemmtun um haustið en þá í pörtum. Þá var ekki annað að gera en hefjast handa við viðgerðir og viðbætur.

Mikilvægi ormsins í huga andstæðinga MH er greinilegt en MR-ingar hafa að minnsta kosti tvisvar gerst sekir um að ræna orminum. Í fyrra sinnið var tilefnið að skólarnir tveir öttu kappi í ræðukeppni framhaldsskólanna, Morfís. MH-ingar hefndu sín með því að nema á brott þáverandi forseta Framtíðarinnar, málfunda- og nemendafélags MR. Að lokum voru höfð gíslaskipti svo Miðgarðsormurinn rataði aftur heim. Tilefni ránsins árið 2014 var viðureign skólanna í Gettu betur og þá svöruðu MH-ingar með því að stela Hljóðnemanum, verðlaunagrip keppninnar, sem var í vörslu MR. Orminum var skilað en MH-ingar héldu Hljóðnemanum því sigurinn var þeirra þetta árið.

Ormurinn nýtur umhyggju

Lagningardagar hafa í gegnum árin verið sæludagar ormsins. Árið 2007 sagði Hulda Halldóra Tryggvadóttir, oddviti lagningardaga, frá því að dagarnir hefðu verið nýttir til ýmissa fegrunaraðgerða á orminum. Sama var uppi á teningnum á lagnó 2017 þegar ormurinn var tekinn niður og hristur hraustlega í Útgarði. Svo var hann snyrtur, stoppað í göt, spottar klipptir o.s.frv. og að lokum var hann fylltur af tróði. Sögur herma að þá hafi ýmislegt ratað inn í orminn, svo sem leyndarmál skrifuð á miða og ýmislegt fleira. Mæling þetta ár sýndi að hann hafði náð 82 metrum.

Bjartsýnir nemendur hafa vonast til að ormurinn nái einhvern tíma að komast í heimsmetabók Guinnes sökum lengdar sinnar en því miður er langt í það. Lengsti prjónaði ormurinn er í Hastings í Ástralíu og hann mældist 1768,8 metrar árið 2013. En ormurinn lengist, til þess sjá bæði nemendur, starfsfólk og gestir sem heimsækja skólann.

MH-ingum þykir vænt um orminn. Málfundafélagið (ráð innan NFMH) er verndari hans en félagar þess passa hann og bera ábyrgð á honum þegar farið er með hann út úr húsi. Nýlega hefur ormurinn eignast tvö lítil systkini sem fylgja bróður sínum úr húsi, t.d. á Gettu betur. Litlu ormana gerði Anna Eir Guðfinnudóttir, sálfræðikennari og félagsmálafulltrúi. Anna passar upp á annan og Þórunn Þórarinsdóttir félagsmála- og forvarnafulltrúi gætir hins.

Miðgarðsormurinn skipar virðingarsess í skólasamfélaginu og leggur sitt af mörkum til að skapa hinn eina sanna MH-anda.

Miðgarðsormur fluttur milli staða

Mikil fyrirhöfn er að færa Miðgarðsorminn milli staða.

Umfjöllunin er að hluta byggð á tveimur greinum úr Morgunblaðinu, annars vegar „Hillir undir heimsmet hjá Miðgarðsorminum í MH“ frá 20. febrúar 2007 og hins vegar „Upphaf ormsins langa“ frá 24. febrúar 2007.

Síðast uppfært: 24. mars 2025