Inntökuskilyrði og úrvinnsla umsókna

Inntökuskilyrði

Almennt skilyrði þess að hefja nám til stúdentsprófs í Menntaskólanum við Hamrahlíð er að hafa hlotið einkunnina B, B+ eða A í ensku, íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla. Nemendur með A í einni eða fleiri þessara námsgreina fá heimild til þess að fara í hraðferð(ir) á fyrstu önn. Sérstök inntökuskilyrði eru á IB-braut, listdansbraut og fjölnámsbraut

Úrvinnsla umsókna

Val úr stórum hópi umsækjenda byggir að mestu á samanburði einkunna.

1. Nemendur með eftirtaldar einkunnir í ensku, íslensku og stærðfræði eru í fyrsta forgangshópi:

i)    A í öllum þremur greinunum
ii)   A í tveimur þessara greina og B+ í einni
iii)  A í einni og B+ í tveimur og þannig koll af kolli niður í B í öllum þremur greinunum

2. Næst eru þeir nemendur skoðaðir sem hafa C+ í einni áðurnefndri grein en hærri einkunn í hinum tveimur. Komi til þess að greina þurfi milli nemenda ganga þeir fyrir sem hafa hæstu einkunn í Norðurlandamáli, náttúrufræði eða samfélagsfræði. 

Menntamálastofnun hefur sett fram eftirfarandi töflu um hvernig varpa megi bókstafaeinkunnunum yfir í tölur í því skyni að auðvelda samanburð. Skólinn nýtir þessa töflu í útreikningum sínum:

Forgangsflokkar

Nemandi sem uppfyllir ekki ofantalin inntökuskilyrði fær aðeins inngöngu í skólann ef rými leyfir og sérstakar upplýsingar fylgja umsókn sem renna stoðum undir að nemandinn muni standast kröfur skólans um námsárangur.

Nemendur með einkunnina C í íslensku og ensku eiga litla möguleika á að komast inn í skólann. Skólinn býður hins vegar upp á 1. þreps áfanga í stærðfræði og dönsku (í dönsku frá og með haustið 2023) og því geta nemendur með C í stærðfræði eða C dönsku átt einhverja möguleika á skólavist. 

Hraðferðir á fyrstu önn

Nemendur með A eða B+ í ensku, íslensku eða stærðfræði fá heimild til þess að fara í hraðferð(ir) á fyrstu önn í einhverjum þessara greina. Boðið er upp á hraðferðir sem eru þannig að tveir áfangar eru teknir saman. Hraðferðaráfangarnir heita ÍSLE2AB10, ENSK2AB10 og STÆR2AB10. Áfangarnir eru kenndir með sama tímafjölda og aðrir áfangar, fjórar kennslustundir á viku, en efnistök og yfirferð miðast við að nemendur hafi mjög góð tök á námsefninu. Að loknum þessum áföngum hafa nemendur lokið sem svarar tveimur áföngum (10 einingum) í faginu. 

Umsóknir eldri nema

Menntamálastofnun auglýsir hvenær innritun eldri nema, þ.e. þeirra sem koma úr öðrum framhaldsskólum, fer fram. Umsóknir þeirra eru metnar út frá aldri, einkunnum úr grunnskóla og námsárangri í framhaldsskóla. Hver umsókn er skoðuð sérstaklega.

Upplýsingar um námsbrautir til stúdentsprófs.

Síðast uppfært: 24. apríl 2024