- Þú þarft að ákveða hvaða þætti þarf að leggja mesta áherslu á, hvaða þættir skipta minna máli og hvað er óþarfi að rifja upp. Nauðsynlegt er að fá upplýsingar um þetta hjá kennara.
- Finndu til allar þær bækur, próf og verkefni sem þú þarft að nota við upprifjunina.
- Hikaðu ekki við að spyrja um þau atriði sem þú ert í vafa um, t.d. í kennslustund eða með því að tala við kennara einslega.
- Mikilvægt er að vera virkur við vinnuna. Upprifjun verður áhrifameiri ef þú reynir að lesa fleiri en einn texta um sama efnisþátt, t.d. námsbókina, glósur og verkefni og reynir í leiðinni að hugsa um efnið sem lesið er. Mundu að lesa yfir glósur úr tímum, verkefni og ritgerðir.
- Oft getur það hjálpað að búa til spurningar úr efninu um leið og maður les yfir.
- Góð æfing er að reyna sjálf/ur að umorða mikilvæg efnisatriði þannig að auðveldara verði að svara á prófi.
- Skipuleggðu tímann vel þannig að þú komist yfir alla þá þætti sem þú þarft að rifja upp. Gott er að gera nákvæma vinnuáætlun dag fyrir dag. Ekki ætla þér að vinna í of löngum lotum í senn. Sumum hentar vel að vinna í 30 mínútur í einu og gera síðan stutt hlé á vinnunni, en mikilvægast er að finna út hvað hentar manni sjálfum.
- Við lestur verður maður þreyttur andlega og þarf því að fá útrás annarstaðar til að verða þreyttur líkamlega. Gott er að fara út að ganga, hlaupa, í sund eða einhverja aðra íþróttaiðkun.
- Finndu góðan stað þar sem þú getur unnið í friði. Nauðsynlegt er að hafa pláss fyrir öll þau gögn sem þú þarft að nota og æskilegt er að þú þurfir ekki að pakka öllu saman þegar öðru heimilisfólki þóknast.
- Gerðu ráð fyrir tíma til að slaka á og hvíla þig.
- Mikilvægt er að fá nægan svefn og borða hollan mat.
- Ekki er ráðlagt að lesa fram á nótt, nóttina fyrir prófið.
Síðast uppfært: 17. nóvember 2020