Verkáætlun MH gegn einelti, kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og ofbeldi
Nemendamál
Í Menntaskólanum við Hamrahlíð er hvers kyns ofbeldi ekki liðið. Komi upp grunur um slíkt í skólasamfélaginu skuldbindur skólinn sig til þess að bregðast við með skilvirkum hætti. Verkáætlun MH gegn einelti, kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO) er starfsfólki, nemendum og forsjáraðilum til upplýsinga og viðbragðsaðilum til leiðsagnar.
Hugtakaskýringar
Einelti er endurtekin athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Einelti hefur margar birtingarmyndir. Það getur falist í móðgun, særandi orðræðu, ógnun, baktali, útbreiðslu lyga og líkamsmeiðingum, svo eitthvað sé nefnt. Stundum er einelti augljóst öllum sem vilja sjá það en oft er það dulið og alls ekki augljóst. Einelti getur átt sér stað í raunheimum og netheimum.
Neteinelti er yfirleitt skilgreint sem neikvætt áreiti af ásettu ráði af höndum eins aðila eða hóps á rafrænu formi gagnvart einstaklingi sem getur ekki auðveldlega varið sig. Um er að ræða áreiti sem getur falið í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi í gegnum hvers konar upplýsinga- og samskiptatækni. Það felur meðal annars í sér tilraunir til að stjórna eða ráðskast með þolandann, áreita, niðurlægja, stríða eða ógna. Boðleiðir neteineltis eru jafn fjölbreyttar og birtingarmyndir þess eru en neteinelti fer yfirleitt fram á þeim vettvangi sem er vinsælastur hverju sinni.
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg (s.s. athugasemdir, brandarar, myndbirtingar, snerting). Kynferðisleg áreitni getur átt sér stað í raunheimum og netheimum. Hegðunin er óvelkomin svo upplifun þess sem verður fyrir áreitninni skilgreinir alvarleika hennar. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðislegt ofbeldi er brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga. Ef einstaklingur þvingar manneskju til að gera eitthvað kynferðislegt er það kynferðisofbeldi. Það getur til dæmis verið kynmök, innsetning eða snerting á líkamshluta. Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun. Kynferðisofbeldi á sér þó ýmsar birtingarmyndir og felur ekki alltaf í sér líkamlega valdbeitingu eða jafnvel snertingu. Það er nóg að um einhvers konar kynferðislega hegðun sé að ræða sem ekki var samþykki fyrir, hvort sem það er í samskiptum í eigin persónu eða í gegnum stafræna miðla.
Stafrænt kynferðisofbeldi er kynferðisofbeldi sem á sér stað á netinu eða á annan rafrænan hátt. Það að senda kynferðislegt efni til manneskju án samþykkis er kynferðisofbeldi sem og að dreifa slíku efni án samþykkis. Þetta á jafnt við um myndir, myndbönd, hljóðskjöl eða skrifaðan texta sem fela sér í nekt eða annað kynferðislegt efni sem viðkomandi hefur ekki gefið leyfi fyrir upptöku á og/eða dreifingu. Það er líka kynferðisofbeldi að þvinga fram kynferðislegt efni jafnvel þótt því sé ekki dreift. Þvingun getur verið í formi þrýstings, linnulausra beiðna eða hótana.
Ofbeldi felur í sér meiðandi verknað. Ofbeldi getur verið andlegt og/eða líkamlegt, afmarkaður verknaður eða síendurtekinn. Ofbeldi getur átt sér stað í raunheimum og netheimum, til dæmis á skólalóð og/eða á samfélagsmiðlum. Netofbeldi er það þegar tæki eða tækni er notuð til að ógna, áreita eða niðurlægja einstakling. Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla (eins og TikTok, Facebook, Twitter, Instagram eða Snapchat). Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil.
Skilgreiningar o.fl. fræðsluefni á íslensku
Fræðsla um ofbeldi og ráð fyrir börn og unglinga á 112.is (tengill opnast í nýjum glugga)
Fræðsluefni um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni á stigamot.is (tengill opnast í nýjum glugga)
Fræðsluverkefnið #sjúkást á vegum Stígamóta (tengill opnast í nýjum glugga)
Upplýsingasíða Æskulýðsvettvangsins um neteinelti (tengill opnast í nýjum glugga)
Ábyrgðaraðilar og verkaskipting
EKKO-teymi Menntaskólans við Hamrahlíð er skipað fjórum aðilum; áfangastjóra, IB-stallara, kennara og jafnréttis- og samskiptaráðgjafa. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi fer fyrir teyminu og ber ábyrgð á móttöku tilkynninga og framfylgd EKKO-mála. Yfirlit yfir verkaskiptingu EKKO-teymis má sjá í töflunni hér fyrir neðan.
Tafla 1.0 Verkaskipting
Verksvið |
Ábyrgð |
Móttaka mála |
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi |
Fundarboð EKKO teymis og ritun fundargerða |
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi |
Eftirfylgni óformlegra tilkynninga; viðtöl og úrvinnsla í kjölfar þeirra |
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi, viðeigandi aðilar úr stoðþjónustu |
Eftirfylgni formlegra tilkynninga, rannsókn og viðtöl við aðila máls |
EKKO-teymi MH |
Úrræði innanhúss: Fagaðilar sem hægt er að vísa nemendum til í kjölfar formlegra og óformlegra tilkynninga |
Fagaðilar í stoðþjónustu skólans (sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur, námsráðgjafar, jafnréttis- og samskiptaráðgjafi) |
Tilkynningar til barnaverndar/lögreglu |
Rektor |
Skráningar og skjalavarsla |
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi, viðeigandi aðilar úr EKKO-teymi og stoðþjónustu eftir því sem þau koma að málum |
Tilkynningar EKKO-mála
Fólk sem upplifir sjálft eða telur aðra upplifa einelti, kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega áreitni eða annars konar ofbeldi getur tilkynnt það til EKKO-teymis skólans. Á heimasíðu skólans er tilkynningahnappur þar sem hægt er að senda ábendingar/tilkynningar. EKKO-teymi skólans tekur við öllum tilkynningum og fylgir málsmeðferð þeirra eftir. Allar tilkynningar sem fara í gegnum hnappinn berast stjórnendum sömuleiðis.
Tilkynningar geta borist í gegnum óformlegar og formlegar leiðir. Allar tilkynningar eru teknar til skoðunar. Þær eru skráðar og meðhöndlaðar sem trúnaðargögn, upplýsingar eru vistaðar í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro.
Nóg er að um grun sé að ræða. Þriðji aðili, sem tilkynnir en hefur ekki beina aðild að atviki eða tilteknum samskiptum, telst ekki vera aðili máls og á ekki rétt á upplýsingum um málið. Stundum eru mál þess eðlis að viðbrögð af hálfu skólans (eða aðila sjálfra) koma ekki upp á yfirborðið. Persónuvernd og trúnaður vegur þungt. Ef efasemdir vakna um viðbrögð skólans er mögulegt að hafa samband við fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum (tengill opnast í nýjum glugga).Það getur grennslast fyrir um stöðu mála í skólanum og fylgt því eftir ef ekki hefur verið brugðist rétt við. Það er sjálfsagt að láta vita oftar en einu sinni vegna sama máls/sömu einstaklinga ef einelti, áreitni eða ofbeldi heldur áfram.
Óformleg tilkynning (ábending)
Óformleg tilkynning getur borist í gegnum samtal eða tölvupóst og felur í sér svokallaða viðrun máls. Hún getur til dæmis falið í sér vangaveltur nemanda í tengslum við mögulegt EKKO-mál eða ábendingu frá þriðja aðila. Óformleg tilkynning getur borist EKKO-teymi en það er ekki nauðsynlegt, annað starfsfólk skólans getur tekið á móti óformlegum tilkynningum og fylgt þeim eftir (sjá óformlega málsmeðferð hér fyrir neðan). Tilgangur viðrunar er að einstaklingur hafi öruggar aðstæður til að ræða upplifun sína óháð því hvort stofnað verður til formlegrar kvörtunar eður ei. Sé einungis um viðrun að ræða án þess að lögð sé fram formleg EKKO-tilkynning er viðkomandi boðin aðstoð og eftirfylgni með fagaðilum úr stoðþjónustu eftir þörfum.
Formleg tilkynning
Nemandi sem ákveður að setja inn formlega tilkynningu eftir að hafa leitað til starfsfólks í gegnum óformlegar leiðir skal fá allar nauðsynlegar upplýsingar um verkferla formlegra tilkynninga innan skólans áður en lengra er haldið.
Starfsfólki og forsjáraðilum er heimilt senda inn formlega tilkynningu fyrir hönd nemenda undir 18 ára aldri og í samráði við nemendur yfir 18 ára aldri. Ekki er aðhafst í máli nema sá sem verður fyrir áreitni eða kynferðislegu ofbeldi sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum að ræða (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) er máli vísað til lögreglu. Rektor fylgir slíkum tilkynningum eftir.
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi skólans ber ábyrgð á móttöku formlegra tilkynninga og fylgir þeim eftir í samráði við EKKO-teymi skólans. Allar ábendingar sem berast í gegnum tilkynningahnapp hefjast með formlegri málsmeðferð.
Óformleg og formleg málsmeðferð EKKO-mála
Tilkynningar eru flokkaðar sem óformlegar og formlegar (sjá umfjöllun hér fyrir ofan). Það sama á við um málsmeðferðir, þ.e. ýmist er um formlega eða óformlega málsmeðferð að ræða. Mál geta verið óformleg á fyrstu stigum og færst svo yfir í formlegan farveg ef við á. Hvort sem mál fara í formlegan eða óformlegan farveg þá er markmiðið alltaf að skapa öryggi, styðja við góð samskipti og koma í veg fyrir að einelti, áreitni og ofbeldi viðgangist í skólanum.
Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar og sýna traust og virðingu. Áhersla á trúnað felur í sér að starfsfólk ræðir ekki um persónuleg mál við óviðkomandi. Ekki eru fleiri dregnir inn í mál en nauðsynlegt þykir. Ef rjúfa þarf trúnað til að tilkynna mál fær viðkomandi upplýsingar um það. Það á einnig við ef þörf er á fleiri aðilum til samstarfs vegna máls. Áhersla á traust felur í sér að brugðist er við öllum ábendingum og tilkynningum. Samráð er haft um aðgerðir sem gripið er til, sérstaklega er mikilvægt að þau sem upplifa að á þeim sé brotið séu höfð með í ráðum. Áhersla á virðingu felur í sér sýnda umhyggju fyrir öllum aðilum við meðferð mála, að hlustað sé á ólík sjónarmið og ekki sé reynt að stjórna eða afbaka upplifanir fólks.
Óformleg málsmeðferð
Ef vandinn er metinn minni háttar og tilkynnandi hefur fyrst og fremst þörf fyrir samtal, stuðning og óbeinar aðgerðir getur óformleg málsmeðferð verið rétta leiðin. Einnig ef málsatvik eru óljós, ekki fást upplýsingar eða ef tilkynnandi óskar eftir því að málið fari ekki í formlegan farveg þá getur verið um óformlegan farveg að ræða (ef það er metið að ekki sé um mjög alvarlegt mál að ræða). Óformlega leiðin krefst þess ekki að fleiri séu settir inn í málið nema nemandi óski eftir því eða í góðu samráði við hann.
Ef um félagslegt óöryggi eða einangrun er að ræða en tilkynning/grunur beinist ekki að tilteknum nemanda/nemendum eða atviki/atvikum getur verið gripið til almennra aðgerða, eins og eflingar forvarna eða samskiptavinnu með tilteknum einstaklingi eða hópi. Úrræðin sem eiga við geta verið ýmiss konar stuðningur stoðþjónustu, s.s. viðtöl við sálfræðing, námsráðgjafa, jafnréttis- og samskiptaráðgjafa) geta verið þau úrræði sem eiga við. Mál geta verið óformleg á fyrstu stigum og færst svo yfir í formlegan farveg ef við á.
Tafla 2.0 Óformleg málsmeðferð
Móttaka |
Óformleg tilkynning getur verið ábending eða grunur og komið fram í samtali eða öðrum samskiptum. Óformlegar tilkynningar berast ekki endilega EKKO-teyminu heldur þeim sem nemandi treystir fyrir samtalinu, s.s. kennara eða námsráðgjafa. |
Viðbrögð |
Fyrstu viðbrögð eru alltaf að hlusta, án þess að spyrja leiðandi spurninga og án þess að efast um frásögnina. Þakka traustið og staðfesta að það hafi verið rétt að segja frá. Næstu skref eru ákveðin í samráði við nemandann. Starfsfólk sem tekur á móti nemandanum aðstoðar nemandann við að leita stuðnings hjá viðeigandi aðilum innan stoðþjónustu skólans, t.d. sálfræðingi eða jafnréttis- og samskiptaráðgjafa. Æskilegt er að upplýsa fulltrúa úr EKKO-teymi um stöðuna (með samþykki nemandans). Ef samtal leiðir í ljós að málið eigi betur heima í formlegum farvegi þá eru viðeigandi skref tekin. Ef ræða þarf við aðra málsaðila en þann sem tilkynnir skal málið sett í formlegan farveg. Þar undir falla t.d. upplýsingar frá þriðja aðila um grun um ofbeldi. |
Tilkynningar |
Athugið að sum mál ber að tilkynna til barnaverndaryfirvalda. Slíkar tilkynningar fara í gegnum rektor. EKKO-teymið getur einnig veitt ráðgjöf um hvort málið sem um ræðir sé þess eðlis. |
Skráningar |
Ef óformleg tilkynning felur í sér upplýsingar sem æskilegt væri að halda til haga þá skal ávallt hafa samband við fulltrúa úr EKKO-teymi. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi skráir málið undir trúnaði í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro. |
Eftirfylgni |
Öllum óformlegum tilkynningum skal fylgt eftir. Ef málið kom ekki inn á borð stoðþjónustunnar í fyrri skrefum er æskilegt að athuga hvernig gengur hjá nemandanum eftir þrjár vikur (til viðmiðunar). Ef forsendur breytast eða nemandi óskar eftir frekari aðgerðum er sá möguleiki alltaf opinn að leita til stoðþjónustu skólans eða hefja formlega málsmeðferð. |
Formleg málsmeðferð
Þessi leið er valin ef nemandi eða fulltrúi hans leggur fram formlega kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi. Allar ábendingar sem berast í gegnum tilkynningahnappinn eru skráðar í formlegri málsmeðferð. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi ber ábyrgð á móttöku formlegrar tilkynningar og svarar viðkomandi um móttöku erindisins. Viðkomandi kallar saman EKKO-teymi skólans sem fundar um næstu skref málsins.
Alltaf er leitast við að leyfi nemandans liggi fyrir áður en mál viðkomandi fer í formlegan farveg og viðkomandi aðilum er þá tilkynnt að formlegt ferli sé hafið. Formleg málsmeðferð felur í sér markvissa könnun á málsatvikum og í kjölfarið áætlun um næstu skref sem framfylgt er af viðeigandi fagaðilum innan- og/eða utanhúss. Þá skapast einnig forsendur til beinna eða skýrari aðgerða sem geta sem dæmi falist í tiltali, tilmælum, áminningum, fundum, aðstoð og fræðslu. Eftirfylgni og skráningar eru meiri í formlegu máli.
EKKO-teymið kemur sér saman um verklag og verkaskiptingu í hverju máli fyrir sig en neðangreint verklag skal haft til hliðsjónar. Athugið að hvert mál er einstakt og framvinda skrefa getur verið mismunandi hverju sinni. Ef nemandi óskar eftir því að ekki sé rætt um málið innanhúss er leitað til utanaðkomandi ráðgjafa. Ef óskað eftir því, eða ef ástæða er til að einhver sé ekki inni í máli vegna vanhæfis, þá er tekið tillit til þess. Allar ákvarðanir eru skráðar og rökstuddar af fulltrúum EKKO-teymis og viðeigandi fagaðilum í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro. Skráningar eru trúnaðarupplýsingar.
Tafla 3.0 Formleg málsmeðferð
1. liður |
Móttaka |
Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi kallar EKKO-teymi saman eftir að formleg tilkynning hefur borist. EKKO-teymið metur málið og tekur sameiginlega ákvörðun um framvindu þess. EKKO-teymi heldur utan um öll skref og fundar reglulega á meðan unnið er að málinu. |
2. liður |
Athugun og upplýsingaöflun |
Mál eru alltaf könnuð áður en brugðist er við. Athugun og upplýsingaöflun fer fram með viðtölum og gagnaöflun. Viðtöl: Fyrsta skref er viðtal við þann sem tilkynnir. Næst eru viðtöl tekin við hluteigandi aðila þar sem þau eru upplýst um feril málsins (eins og við á) og sjónarhorn þeirra eru dregin fram. Rætt er við þá sem tengjast málinu og aðra sem geta veitt upplýsingar en ekki eru fleiri dregnir inn í mál en nauðsyn krefur. Í viðtölum er trúnaðar gætt og tillit tekið til persónuverndarsjónarmiða. Gögn: Gögn sem tengjast málinu eru tekin til skoðunar samhliða viðtölum. Gæta þarf vel að persónuupplýsingum við meðferð gagna. Aðilar máls eiga rétt á upplýsingum um feril þess en EKKO-teymið ásamt þeim sem tilkynna meta hversu ítarlegar upplýsingarnar eru á þessu stigi málsins. Persónuverndarfulltrúi skólans veitir leiðsögn eins og þurfa þykir um meðferð gagna. |
3. liður |
Skráningar |
EKKO-teymið leiðir alla jafna vinnu við formleg mál og heldur utan um gögn og skráningar. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi ber ábyrgð á framfylgd skráninga. Málsgögn eru geymd í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro. Skjalastjóri heldur utan um geymslu þeirra í samræmi við persónuverndarlög og lög um opinber skjalasöfn. |
4. liður |
Úrvinnsla og stuðningur á meðan athugun stendur |
EKKO-teymið metur þörf á stuðningi í kjölfar tilkynningar og vísar aðilum máls til viðeigandi fagaðila innanhúss. Ef þörf er á sérfræðiaðstoð utan skóla aðstoðar EKKO-teymið og stoðþjónusta málsaðila og fjölskyldur þeirra að nálgast slíka þjónustu. Dæmi um utanaðkomandi aðstoð: Heimilisfriður, Stígamót, Bjarkarhlíð, Bergið og sjálfstætt starfandi sálfræðingar. |
5. liður |
Bráður stuðningur og viðbrögð (þegar við á) |
Við upphaf tilkynningar er metin þörf nemanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Nemandi og stuðningsaðili úr EKKO-teymi ákveða í sameiningu hvort ástæða er til að leita til utanaðkomandi fagaðila (áfallahjálp, bráðamóttaka, lögregla). Undir 18 ára: Ef um ofbeldi eða kynferðislega áreitni er að ræða skal hafa samband við barnaverndaryfirvöld. Rektor ber ábyrgð á slíkum tilkynningum. Yfir 18 ára: EKKO-teymi aðstoðar þolanda við að leita sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum. Ákveði þolandi að leita réttar síns mun EKKO-teymi vera til stuðnings eftir bestu getu. |
6. liður |
Takmörkun á samgangi nemenda |
Í sumum tilfellum þarf að takmarka samgang nemenda áður en lengra er haldið með rannsókn málsins. Þá skal skoða stundatöflur og færa nemendur á milli hópa. Ef færa þarf málsaðila sem hefur verið tilkynntur þarf viðkomandi að vera vel upplýstur um ástæðu tilfærslunnar. Fulltrúi EKKO-teymis sendir beiðni til námsráðgjafa þegar færa á nemendur á milli hópa. |
7. liður |
Trygging öryggis |
Ef ástæða er til að ætla að öryggi nemanda sé ógnað skal finna leiðir til að bregðast við því. Að þeirri vinnu koma stjórnendur og námsráðgjafar ásamt EKKO-teymi skólans. |
8. liður |
Tilkynningar til foreldra |
Í kjölfar formlegra tilkynninga (fyrir og/eða eftir upplýsingaöflun) er haft samband við forsjáraðila ólögráða nemenda (þeirra sem tilkynna og þeirra sem eru tilkynnt). Upplýsa skal forsjáraðila ólögráða einstaklinga um næstu skref áður en gripið er til aðgerða. EKKO-teymið metur í hverju tilviki fyrir sig hvort hafa þurfi samband við foreldra lögráða einstaklinga (ásamt viðkomandi). |
9. liður |
Tilkynningar til barnaverndar og/eða lögreglu |
Þegar við á er leitað til lögreglu eða barnaverndaryfirvalda. EKKO-teymið metur hvert tilvik fyrir sig og í samráði við stjórnendur. Þegar senda þarf tilkynningu til barnaverndar eða lögreglu er það í höndum rektors. Sjá verklagsreglu um trúnað, samstarf og tilkynningar fyrir nánari upplýsingar (hér fyrir neðan). |
10. liður |
Upplýsingar um eftirfylgni |
Ef utanaðkomandi aðilar óska eftir upplýsingum um meðferð máls er staðfest að verið sé að vinna í málinu. Markmiðið er að veita fullvissu um að mál séu í farvegi og brugðist verði við. Forsjáraðilar ólögráða einstaklinga skulu upplýstir um stöðu máls eins og þurfa þykir. Ef aðilar máls (eða forsjáraðilar nemenda undir 18 ára aldri) óska eftir frekari upplýsingum um meðferð máls eru þær veittar, með tilliti til trúnaðar. Unnt er að veita munnlegt eða skriflegt yfirlit yfir hvar málið er statt í ferlinu og hvaða aðgerða hefur verið gripið til án þess að brjóta trúnað eða fara í saumana á atburðum og upplifun. Leita má til fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum til að taka út þau viðbrögð sem gripið var til og fá mat á því hvort lausn hafi fengist. |
11. liður |
Niðurstaða máls og úrræði |
Þegar lausn hefur fengist, þannig að ekki sé talin ástæða til frekari afskipta skólans af tilteknu máli, þá er það skráð við málið á viðeigandi stað í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi ber ábyrgð á skráningu mála. Að minnsta kosti þrjár vikur þurfa að líða þar sem ástand/samskipti/líðan teljast ásættanleg og án þess að nokkuð komi upp á, til þess að hægt sé að loka formlegu máli. Tryggt er að aðilar máls viti/samþykki að málsmeðferð teljist lokið en þau hvött til að láta vita ef aðstæður breytast. Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir. Henni er framfylgt hjá stoðþjónustu skólans sem veitir nemendum viðeigandi úrræði (innan- og/eða utanhúss). Nemendur sem hafa þurft að þola ofbeldi og nemendur sem hafa beitt ofbeldi eru ekki skráðir á sama fagaðila innan stoðþjónustunnar. Skólinn einsetur sér að nemendur sem verða fyrir ofbeldi fái viðeigandi stuðning og öryggi þeirra sé tryggt innan skólans. Skólinn leggur auk þess áherslu á að nemendur sem hafi beitt ofbeldi fái stuðning til þess að axla ábyrgð og að breyta til batnaðar. Ákvarðanir um brottrekstur nemenda eru neyðarúrræði og í höndum rektors. Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur og ráðgjafar skólans vera viðkomandi til aðstoðar við að leita viðeigandi leiða. |
Trúnaður og skráningar
Í EKKO-málum er mikilvægt að huga að trúnaði. Trúnaður felur í sér að starfsfólk ræðir ekki um persónuleg mál við aðra en þá sem þau varða og ekki séu fleiri dregnir inn í mál en nauðsynlegt er. Auk þess sem ávallt sé upplýst ef rjúfa þarf trúnað til að tilkynna eða kanna mál. Að því sögðu þá er það oft hagur barns að aðilar vinni saman að málum sem varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Það skal gert í sem bestu samráði við nemandann.
Börn að 18 ára aldri eru fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og önnur íslensk lög gera því ráð fyrir því að börn öðlist stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf og taka sjálfstæðar ákvarðanir, sbr. meðal annars 12. gr. Barnasáttmálans, 3. mgr. 1. gr og 6. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þess vegna er mikilvægt að hlusta af virðingu og taka tillit til þeirra eigin óska eftir að þau hafa leitað aðstoðar. Ef upp kemur óvissa varðandi réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins í tengslum við trúnað, samstarf og tilkynningar er mögulegt að leita t.d. til umboðsmanns barna, Barna- og fjölskyldustofu, barnaverndar og viðeigandi ráðuneytis.
EKKO-teymi skólans heldur utan um skráningar og vörslu upplýsinga. Allar skráningar eru vistaðar í skjalastjórnarkerfi skólans, GoPro. Leita skal ráðgjafar til persónuverndarfulltrúa skólans varðandi nafnleynd og persónuvernd við skráningu og vörslu upplýsinga. Í sumum tilvikum er heimilt að takmarka aðgang að gögnum, t.d. ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra (sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga).
TILKYNNINGAR TIL BARNAVERNDAR
Samkvæmt lögum um barnavernd (nr. 80/2002) þá er öllum almenningi skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef grunur vaknar um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Þegar tilkynnt er um vanrækslu eða áhættuhegðun barns er oftast nær um að ræða ástand sem hefur varað í lengri tíma og hefur ekki breyst nægjanlega þrátt fyrir ábendingar og leiðbeiningar starfsmanna til foreldra.
Þeim sem vinna með börnum eða hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf (þar á meðal kennarar, skólastjórar, náms- og starfsráðgjafar og sálfræðingar) er sérstaklega skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarþjónstu viðvart. Tilkynningaskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
Hér er hlekkur á leiðbeiningar Barna- og fjölskyldustofu vegna tilkynningaskyldu (opnast í nýjum glugga)
Ferli vegna tilkynninga til barnaverndar:
- Grunur vaknar: Ofbeldi, áhættuhegðun, vanræksla. Það er nóg að um grun sé að ræða og hann þarf ekki að vera staðfestur.
- Hlustun og skráning: Ef nemandi hefur leitað til starfsmanns af fyrra bragði skal upplýsa hann um að rjúfa þurfi trúnað vegna tilkynningaskyldu. Góð hlustun er mikilvæg en varast ber að spyrja út í einstaka atriði eða spyrja leiðandi spurninga.
- Tilkynnt til stoðþjónustu og stjórnenda: Ef grunur leikur á að barn sé í hættu skal hafa samband við stoðþjónustu og rektor. Hægt er að leita beint til barnaverndar eða 112 ef starfsmaður treystir sér ekki til að leita til stoðþjónustu eða stjórnenda.
- Samband haft við forsjáraðila: Að jafnaði (og þegar við á) skal láta forsjáraðila vita af tilkynningunni og gera þeim grein fyrir að starfsfólk skólans sé að fylgja lagaskyldu um að tilkynna til barnaverndarnefndar. Tekið skal fram að unnið verði út frá velferð barnsins, stuðningi og lausnum. Ef við á er nemanda gefinn kostur á að ræða fyrst við forsjáraðila áður en haft er samband frá skólanum.
- Mál tilkynnt til barnaverndar eða 112: Rektor sendir inn tilkynninguna til barnaverndarþjónustu sveitarfélagsins sem barnið á lögheimili í (sjá vefsíðu, bvs.is). Tilkynningin er send í nafni skólans en hann nýtur ekki nafnleyndar sbr. 19. grein barnaverndarlaga. Athugið að tilkynning er ekki kæra. Meta þarf hvort einnig sé ástæða til þess að tilkynna málið til lögreglu.
- Staðfesting frá barnavernd um að tilkynning hafi borist.
- Áfram unnið í málinu innan skólans samkvæmt leiðbeiningum um óformlega og formlega málsmeðferð. Markmiðið er að tryggja velferð og öryggi allra hlutaðeigandi, veita aðstoð, vísa í úrræði o.s.frv. Upplýsingar eru veittar til barnaverndar þegar óskað er eftir þeim og ráðleggingum frá barnavernd fylgt þegar svo ber undir.
- Tilkynnt aftur ef þurfa þykir: Hvert atvik og áframhaldandi áhyggjur gefa tilefni til endurtekinna tilkynninga til barnaverndar. Ef skólinn, aðilar máls eða aðstandendur bíða eftir viðbrögðum frá barnavernd er mögulegt að ganga úr skugga um að málið sé í ferli hjá þeim og ef til vill að ýta á eftir því. Barnavernd er bundin trúnaði og hefur ekki upplýsingaskyldu gagnvart skólanum en getur veitt almennar upplýsingar og ráðleggingar.
- Forsjáraðilar: Náms- og starfsráðgjafar eða aðrir úr stoðþjónustu hafa gjarnan samband við forsjáraðila þegar áhyggjur vakna, hvort sem það er vegna náms, líðanar eða hegðunar. Forsjáraðilar nemenda undir 18 ára aldri geta óskað eftir upplýsingum um sitt barn. Við upplýsingagjöf er tekið tilliti til trúnaðar og samþykkis unglingsins.
Forsjáraðilar geta verið lykilaðilar í viðbrögðum og mikilvægur stuðningur. Það er þó ekki sjálfgefið að foreldrar fái upplýsingar um EKKO-mál sem eru í óformlegri eða formlegri málsmeðferð í MH. Börn geta almennt borið mikla ábyrgð frá 15 ára aldri, sbr. sakhæfi og við 16 ára aldur verða unglingar sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins og sjálfstæður aðili barnaverndarmáls. Vilji unglings hefur því vægi varðandi það hvort, hvenær og hvernig forsjáraðilar eru upplýstir eða innvinklaðir. Það er vel séð að forsjáraðilar sýni frumkvæði í samskiptum við skólann en bíði ekki eftir því að haft sé samband frá skólanum. Forsjáraðilar eru jafnframt hvattir til að leita upplýsinga beint frá barninu um líðan þess og þau atvik sem kunna að koma upp. Ef til þess kemur að nemandi sætir viðurlögum vegna brota á skólareglum er gengið út frá samstarfi við forsjáraðila og upplýsingagjöf til þeirra.
Verkáætlun þessi byggir á EKKO-leiðarvísi fyrir framhaldsskóla frá 2023 (útg. Stjórnarráðið) og sækir fyrirmyndir til sambærilegra verkáætlana í öðrum framhaldsskólum, m.a. Menntaskólans að Laugarvatni.