Einingar fyrir félagsstörf

Menntaskólinn við Hamrahlíð metur framlag nemenda til skólabrags og félagslífs mikils. Þeir nemendur sem leggja sérstaklega hart að sér, samnemendum sínum og skólanum til góðs, geta sótt um að fá störf sín metin til eininga á árs grundvelli. Til að fá einingar fyrir þátttöku í viðburðum á vegum NFMH verða nemendur að sýna prúðmennsku í hvívetna, kurteisi í samskiptum og virða skólareglur.

Þátttaka í stjórn NFMH:

Nemendur í stjórn nemendafélags MH eiga kost á að fá 5 einingar að loknu starfstímabili stjórnarinnar.  

Þátttaka í leiklistarnámskeiði NFMH

Nemendur geta fengið 1 einingu, nái námskeiðið að lágmarki 18 klst. Sé leiklistarnámskeiðið hluti af leiksýningu, fellur það inn í þann hluta sem fjallar um leikfélagið (sjá neðar).  Stjórn LFMH sækir um fyrir hönd þeirra nemenda sem tóku þátt í námskeiðinu, eigi síðar en í nóvember.

Leikfélag NFMH - nemendasýningar

Þátttakendur í sýningum geta sótt um 3 einingar í frjálsu vali. Leikstjóri skilar inn þátttökulista sem staðfestir vinnuframlag.

Gettu betur

Þátttakendur í aðal -og varaliði geta fengið 1-3 einingar eftir árangri liðsins hverju sinni. Aðallið getur sótt um að fá 1 einingu fyrir þátttöku eða 3 einingar komist lið í 8 liða úrslit. Varalið getur sótt um að fá 1 einingu. Staðfestingu þarf frá félagsmálafulltrúa MH.

Morfís

Þátttakendur í aðal -og varaliði geta fengið 1-2 einingar eftir árangri liðsins hverju sinni. 1 eining fyrir þátttöku í aðal- eða varaliði.  Aðallið getur sótt um 2 einingar komist þau í 4 liða úrslit. Staðfestingu þarf frá félagsmálafulltrúa MH.

Hægt að fá að hámarki 10 einingar fyrir þátttöku í ofangreindum viðburðum sem eru metnar inn í frjálst val brautar. 

Almennt skal sú regla gilda að þátttaka í viðburðum á vegum NFMH fari fram utan kennslustunda skólans. Skipulag vinnu við viðburði skal hátta þannig að nemendur sem taka að sér einstök verk fyrir nemendafélagið noti til þess töflugöt eða tíma eftir að kennslu lýkur.

Síðast uppfært: 13. september 2024