Brautskráðir voru 155 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sjö námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 85 nemendur, 22 af náttúrufræðibraut, 13 af félagsfræðabraut, 3 af málabraut, 8 af listdansbraut, 2 af fjölnámsbraut og 21 nemandi af IB-braut (International Baccalaureate sem er alþjóðleg stúdentsbraut). Alls voru 17 nemendur brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Tómas Böðvarsson, stúdent af opinni braut, með einstakan námsárangur, þ.e. 10,0 í meðaleinkunn. Tómas hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í efnafræði og spænsku. Semidúx var Dröfn Ólöf Ingvarsdóttir sem útskrifaðist einnig af opinni braut með 9,77 í meðaleinkunn. Dröfn Ólöf hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í ensku og leiklist.
Sigríður Bára Min Karlsdóttir fékk sérstaka viðurkenningu úr Sverrissjóði sem er til minningar um Sverri S. Einarsson fyrrum rektor MH. Sigríður Bára hefur nýtt sér áfangakerfi skólans til hins ítrasta og lauk 313 einingum til stúdentsprófs og útskrifaðist með ágætiseinkunn.
Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Ísold Klara Felixdóttir og Reynir Tómas Reynisson og ávarp fyrir hönd kennara flutti Ragnhildur Richter. Í ávarpi rektors minnti hann útskriftarnemendur á að menntun er vegabréfið að framtíðinni og gefur þeim ótal tækifæri. Hann hvatti nemendur til að nota menntunina til góðra verka á lífsleiðinni. Kór skólans undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar gegndi stóru hlutverki við athöfnina og flutti nokkur verk auk þess sem nokkrir kórfélagar og nýstúdentar fluttu tónlist, m.a. verkið Vorið góða eftir Erlu Hlín Guðmundsdóttur Jörgensen nýstúdent við ljóð Jóhannesar úr Kötlum.