21.02.2025
Vetrarfrí verður í MH mánudaginn 24. febrúar og þriðjudaginn 25. febrúar. Skrifstofan verður lokuð og vonumst við til að þið öll njótið frísins og komið fersk til baka og tilbúin í seinni hluta annarinnar.
20.02.2025
Opið hús fyrir fyrir 10. bekkinga og fjölskyldur sem vilja kynna sér lífið í MH. Kynningar á námsframboðinu í skólanum verða á Miklagarði og Miðgarði og verður hægt að spjalla við nemendur, kennara, námsráðgjafa og stjórnendur um allt sem ykkur dettur í hug. Hver námsgrein mun vera með sinn kynningarbás og sýna sínar allra bestu hliðar t.d. hvaða efni er verið að kenna, hvaða bækur er verið að nota og hvernig verkefni er verið að leysa.
Nemendur skólans bjóða upp á kynnisferðir um skólann og á Matgarði vera ráðin í NFMH með kynningar á starfseminni sinni. Nánari dagskrá kemur síðar.
Endilega kíkið í heimsókn og við tökum vel á móti ykkur.
12.02.2025
Mánudaginn 10. febrúar flutti Helga Jóhannsdóttir konrektor sig yfir á skrifstofu rektors til að gegna því embætti næsta árið. Guðmundur Arnlaugsson IB-stallari sá sér þá leik á borði og flutti úr skrifstofunni sinni á skrifstofu konrektors og mun leysa Helgu af næsta árið. Þar með losnaði stóll IB-stallara og Alda Kravec enskukennari sló til og flutti á skrifstofu IB-stallara. Helgu, Guðmundi og Öldu óskum við öllum góðs gengis og erum spennt að fylgjast með þeim á nýjum vígstöðvum.
12.02.2025
MH-ingar báru sigur úr býtum í Morfís á móti MR-ingum í átta liða úrslitum 11. febrúar síðastliðinn. Lið MH skipa þau Hekla Gná Tjörvadóttir, Illugi Vilhelmsson, Auður Salka Ríkarðsdóttir og Saga Evudóttir Eldarsdóttir. Ræðumaður kvöldsins var Hekla Gná og óskum við henni og liðinu innilega til hamingju.
10.02.2025
Lagningardagar eru 11. og 12. febrúar hér í MH. Þá liggur hefðbundin kennsla niðri og nemendur og starfsfólk fylgir annarri dagskrá sem lagningardagaráð hefur sett saman. Þar kennir ýmissa grasa og má lesa dagskrána á heimasíðu NFMH sem og hér á síðunni. Áfanginn LAGN1AF00 hefur verið settur í stundatöflu flestra nemenda og fæst mæting skráð gegn því að skila inn stimplakorti sem er aðgengilegt í skólanum. Góða skemmtun.
09.02.2025
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð fór í stutta æfingaferð til Hveragerðis föstudaginn 7.febrúar. Þau gistu eina nótt í Menntaskólaselinu, í eigu vina okkar í MR, sem er rétt utan við Hveragerði. Þau sungu saman og skemmtu sér í fallegri náttúru og nutu samvista hvert við annað. Ásamt Hreiðari Inga Þorsteinssyni kórstjóra var Ragnheiður Ólafsdóttir, norsku- og dönskukennari með í för og sáu þau til þess að allt færi vel fram.
06.02.2025
Kennsla hefst skv. fyrri áætlun hér í MH kl. 12:50. Við vonum að allir komist en ef ekki þá skrá nemendur ósk um leyfi í Innu.
05.02.2025
Vegna veðurs fellur kennsla niður fyrir hádegi fimmtudaginn 6. febrúar og er áætlað að hefja kennslu aftur kl. 12:50. Við munum fylgjast vel með og láta ykkur vita ef eitthvað breytist og halda ykkur upplýstum í pósti, hér á heimasíðunni og á instagram. Endilega fylgist líka vel með á Innu þar sem kennarar gætu verið með skilaboð til ykkar.
05.02.2025
Við munum fella niður kennslu í dag eftir kl. 13:45 svo allir geti komist heim áður en veðrið skellur á. Við mælum með að nemendur komi sér fyrir með námsbækurnar í hlýjunni heima og lesi sér til gagns þar í staðin.
29.01.2025
Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setur upp glænýja útgáfu af söngleiknum Diskóeyjunni eftir Braga Valdimar Skúlason nú í vor í samstarfi við Menntaskóla í tónlist. Leikstjórn er í höndum Öddu Rutar Jónsdóttur, Gísli Magna er söngstjóri og Sóley Ólafsdóttir dansstjóri. Sérvalin hljómsveit frá MÍT sér um tónlistarflutning en lifandi tónlist verður á öllum sýningum. Um 60 nemendur taka þátt í uppfærslunni.