Fréttir

Breytingar á yfirstjórn skólans

Um miðjan febrúar verða breytingar á yfirstjórn skólans þegar Steinn hverfur til annarra starfa hjá Reykjavíkurborg og Helga konrektor mun taka við sem settur rektor. Guðmundur Arnlaugsson IB-stallari mun taka við starfi konrektors á sama tíma og Alda Kravec mun koma inn í stjórnun IB-deildar. Við óskum Steini til hamingju með nýja starfið og vonum að honum líði eins vel þar og hjá okkur í MH.

Gulir skápar

Nemendur eiga kost á að leigja skápa undir skólabækurnar sínar eða nota skápa sem þau læsa sjálf með eigin lás. Þau sem voru með gulan skáp á haustönn þurfa að endurnýja fyrir vorönnina og kostar það 500 kr. Þau sem ekki ætla að halda áfram með gula skápinn þurfa að skila inn lyklinum og fá þá endurgreiddar 1500 kr.

Stundatöflur og töflubreytingar

Gleðilega önn. Opnað hefur verið fyrir stundatöflur hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin. Töflubreytingar eru opnar í Innu til og með 4. janúar fyrir þau sem þurfa nauðsynlegar breytingar. Ef einhver þarf töflubreytingu eftir þann tíma, þá þarf viðkomandi að koma við á skrifstofunni og hitta námstjóra eða námsráðgjafa. Nýnemar vorannar geta ekki breytt stundatöflum í Innu heldur þurfa að koma við hjá námstjórum í dag eða á morgun.

Opnað fyrir stundatöflur 2. janúar kl. 13:00

Stundatöflur verða sýnilegar í Innu kl. 13:00 2. janúar hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin og opnað verður fyrir töflubreytingar hjá eldri nemendum í INNU á sama tíma. Þangað til er Inna lokuð. Töflubreytingum í INNU lýkur laugardaginn 4 janúar en eftir það er hægt að sækja um töflubreytingar hjá námstjórum til og með föstudeginum 10. janúar. Eftir það er ekki hægt að bæta áföngum við en hægt er að skrá sig úr áfanga/um. Fyrsti kennsludagurinn er mánudagurinn 6. janúar skv. stundatöflu.

Brautskráning Menntaskólans við Hamrahlíð 20. desember 2024

Brautskráðir voru 65 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af fimm námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 43 nemendur, 15 af náttúrufræðibraut, fimm af félagsfræðabraut, einn af málabraut og einn af listmenntabraut en af henni var nú útskrifað í fyrsta skipti. Að þessu sinni var dúx skólans Heiða Rachel Wilkins, stúdent af náttúrufræðibraut, með 9,70 í meðaleinkunn. Heiða Rachel hlaut jafnframt viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku, líffræði og efnafræði. Semidúx var Eydís Magnea Friðriksdóttir sem útskrifaðist af opinni braut með 8,85 í meðaleinkunn. Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Emma Davidsdóttir og Víf Ásdísar Svansbur. Í kveðjuávarpi rektors minnti hann nýstúdenta á að hafa samkennd og kærleik að leiðarljósi í lífinu, vera til staðar og fylgjast með því sem er að gerast í kringum þau og vera tilbúin að stökkva inn í aðstæður þegar einhver þarf á þeim að halda. Kór skólans undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar gegndi stóru hlutverki við athöfnina og flutti nokkur verk auk þess sem nokkrir kórfélagar og nýstúdentar fluttu tónlist.

Einkunnir og staðfestingardagur

Opnað verður fyrir einkunnir í dag kl. 16:00. Um leið verður opnað fyrir að nemendur geti staðfest valið sitt í Innu. Áður en þið staðfestið þurfið þið að skoða valið ykkar vel og athuga t.d. hvort að þið hafið fengið hraðferðarheimild í ENSK3CH05 eða ÍSLE3CH05 og breyta valinu skv. því. Á morgun, 18. desember, er staðfestingardagur sem hefst með fundi nemenda við umsjónarkennara sína og prófsýning sem hefst kl. 11:15 og er til 12:15. Sjá nánar hér á heimasíðunni.

Home alone

Sinfóníuhljómsveit Íslands, ásamt kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Kammerkórnum Huldur eru þessa dagana að flytja töfrandi og æsispennandi tónlist John Williams á meðan uppáhalds jólamynd margra kynslóða, Aleinn heima eða Home Alone er sýnd í Hörpu. Hreiðar Ingi Þorsteinsson er kórstjóri beggja kóranna og þarna er enn eitt skemmtilega samstarfið í gangi. Frábærir tónleikar sem gefa myndinni enn jólalegri blæ.

MH aðili að samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu í Reykjavík

MH ásamt framhaldsskólunum í Reykjavík er aðili að samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu í Reykjavík. Yfirlýsingin miðar að því að þróa áfram samvinnu á grundvelli laga og stefnu Reykjavíkurborgar til að tryggja umönnun og vernd barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Að sækja gull í prófundirbúningi

Nú þegar prófin standa yfir er mikilvægt að huga vel að líkama og sál. MH-ingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson gerði það með óhefðbundnum hætti núna um helgina þegar hann hélt til Rúmeníu á Balkan Open mótið í taekwondo. Þar gerði hann sér lítið fyrir og sigraði sinn flokk örugglega. Til hamingju með árangurinn!

Veikindi á prófatíma

Veikindi á prófdegi verður að tilkynna samdægurs, fyrir kl. 14:00, í gegnum Innu, alveg á sama hátt og gert er þegar kennsla stendur yfir. Nauðsynlegt er að tilgreina heiti áfangans í athugasemd. Í lok hvers prófdags fer prófstjóri yfir skráðar veikindatilkynningar í Innu, staðfestir þær og veitir upplýsingar um sjúkraprófstíma. Staðfestingin sést í Innu viðkomandi nemenda og forsjáraðila og kemur einnig fram í tölvupósti. Prófstjóri hefur netfangið profstjori@mh.is og er með viðtalstíma milli 10 og 11 alla daga. Sjúkrapróf eru gulmerkt á próftöflunni og hefjast í flestum tilfellum kl. 14:00. Athugið að þetta á ekki við um sjúkrapróf fyrir IB og Fjölnámsbraut. Nemendur sem eru forfallaðir af öðrum orsökum en veikindum þurfa að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 595-5200.