29.09.2020
Föstudaginn 2. október kl. 14:15 verður valtími þar sem nemendur hitta umsjónarkennarann sinn í fyrirfram auglýstum stofum og fá aðstoð við valið fyrir vorönn 2021.
Við viljum hvetja alla nemendur sem ekki eru í lífsleikni og þurfa aðstoð, að mæta í valtímann og fá aðstoð við valið. Val fyrir vorönn 2021 hefst formlega mánudaginn 5. október og stendur út vikuna. Allir sem ætla að halda áfram að stunda nám í MH verða að velja sér áfanga fyrir næstu önn. Framboð áfanga vorannar 2021 mótast af því sem nemendur velja þannig að það skiptir miklu máli að hver og einn nemandi gangi frá sínu vali í valvikunni og velji rétt miðað við sína braut og sitt nám. Nýnemar ganga frá sínu vali í lífsleiknitímum.
Áfangaframboð ásamt leiðbeiningum um framgang valsins verður komið á heimasíðu skólans áður en valið hefst. Valinu þarf að vera lokið fyrir miðnætti mánudaginn 12. október.
ATH það er ekki skyldumæting í valtímann, hann er fyrir nemendur sem þurfa aðstoð við valið. Listi yfir stofur sem valkennarar eru í er hér.
25.09.2020
Langar þig að kynnast heiminum? Langar þig að tengjast nemendum frá öðrum löndum í Evrópu? Langar þig að kynnast skólum og menningu í öðrum löndum? Langar þig að vinna að listsköpun og margmiðlum með fólki víða að úr Evrópu? Langar þig að láta ljós þitt skína? Langar þig að breyta heiminum?
Svona hljóðar póstur frá Ólafi leiklistarkennara til nýnema MH og er hann að vísa í Erasmus verkefni sem hann hefur umsjón með.
23.09.2020
Næstu tvær vikur ætlum við að endurtaka skipulagið sem notað var í viku 4 og 5. Þannig að 28. september til 2. október verður kennsla í MH frá 8:10 til 12:35 skv. stundaskrá hvers og eins nemanda. Íþóttakennsla fyrir hádegi mun verða utanhúss skv. skipulagi sem íþróttakennararnir gefa. Tímar eftir hádegi verða skv. skipulagi kennara í hverjum áfanga fyrir sig. Í vikunni 5. til 9. október verður þessu svo snúið við og tímar verða í MH frá 13:05 til 16:15. Áfram er grímuskylda í MH og við hvetjum nemendur til að fylgjast vel með öllum upplýsingum þar sem aðstæður geta breyst mjög hratt.
20.09.2020
Kennsla í viku 5, 21. - 25. september, verður í MH skv. því sem áður hefur verið gefið út, þ.e. kennt er í skólanum eftir hádegi frá kl. 13:05 til 16:15. Tímar fyrir hádegi eru skipulagðir af kennurum í fjarkennslustund eða verkefnavinnu. Ætlast er til að nemendur mæti með grímur í skólann og beri þar innan dyra frá og með mánudeginum 21.september þar til annað verður gefið út. Þeir sem ekki mæta með grímur munu fá þær afhentar við innganga skólans.
16.09.2020
MH er skipt upp í 5 sóttvarnarhólf og í flestum tilfellum eru lokaðar dyr sem skýra hvar hólf endar. Það er hins vegar ekki mögulegt á Matgarði þar sem vanalega er stórt og opið rými. Matgarður er núna tvískiptur og þar með nýju salernin líka. Við viljum ítreka við nemendur að virða þessar lokanir og hugsa um af hverju við erum að þessu. Nemendur þurfa því að skoða vel í hvaða stofu þeir eiga að mæta svo þeir viti í hvaða sóttvarnarhólfi þeir eiga að vera.
14.09.2020
Í dag og alla þessa viku eru nemendur að mæta í skólann frá kl. 8:10 til 12:35 skv. sinni stundatöflu. Skólanum hefur verið skipt upp í 5 sóttvarnarhólf og þurfa nemendur að vera duglegir að kynna sér inn um hvaða innganga þeir eiga að fara og í hvaða rými þeir mega vera í eyðum. Kennsla eftir hádegi fer fram í rafrænum heimi skv. skipulagi hvers kennara í hverjum áfanga fyrir sig. Í viku 5 verður þessu skipulagi snúið við og rafræn kennsla verður fyrir hádegi en nemendur mæta í MH eftir hádegi. Allar nánari upplýsingar eru aðgengilegar undir Covid-hnappnum.
11.09.2020
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hélt sína fyrstu kóræfingu í skólanum í dag. Kórstjórinn, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, hefur staðið í ströngu í inntökuprófum undanfarna daga og tók opnum örmum á móti hópnum í dag. Salurinn var vel nýttur og fjarlægðarmörk virt. Við bíðum spennt eftir að heyra fagra tóna frá kórnum og óskum nýjum meðlimum ti hamingju með að vera komin í kórinn okkar.
08.09.2020
MH skilaði einu bretti af skjalaöskjum til Þjóðskjalasafns í dag. Öskjurnar innihéldu ýmis gögn úr nemendaskrá skólans, m.a. gamla handskrifaða spjaldskrá, vitnisburð um verklag liðinnar tíðar. Fyrirferðarmest voru gögn nemenda sem stunduðu nám í öldungadeild á einhverjum tímapunkti en brautskráðust ekki úr MH. Öldungadeildin var starfrækt á árunum 1972-2014. Vanti einhverja „öldunga“ upplýsingar um námsferil sinn verða þeir því að leita til Þjóðskjalasafns hér eftir.
03.09.2020
Umsóknarfrestur um jöfnunarstyrk vegna haustannar 2020 er til 15. október næstkomandi n.k. Nemendur geta sótt um jöfnunarstyrkinn með rafrænum skilríkjum eða með Íslykli á heimasíðu Menntasjóðs www.menntasjodur.is eða island.is.
01.09.2020
Í næstu viku fara fram, á Miklagarði, hin árlegu inntökupróf í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð.
Skipulagið eru sem hér segir:
- Mánudagurinn 7. sept: Skráning í inntökupróf kl. 16:30 - 18:00.
- Þriðjudagurinn 8. sept: Inntökupróf I kl. 16:30 - 18:00.
- Miðvikudagurinn 9. sept: Inntökupróf II kl. 16:30 - 18:00.
- Föstudagurinn 11. september: Fyrsta kóræfingin kl. 14:20.
Nánari upplýsingar inn á: https://www.facebook.com/events/248432269617999/
Áhugasamir eru hvattir til að mæta en í fyrra komust færri að en vildu.