31.05.2022
Skrifstofa skólans verður opin 9:00-15:00 (lokað 12:00-12:30) til og með 22. júní. Skrifstofan lokar svo þann 23. júní og opnar aftur eftir sumarfrí þann 8. ágúst.
28.05.2022
Brautskráðir voru 136 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sjö námsbrautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 70 nemendur, 20 af náttúrufræðibraut, 16 af félagsfræðabraut, 8 af málabraut, 5 af listdansbraut, 1 af fjölnámsbraut og 14 af IB-braut (alþjóðlegt stúdentspróf).
Tíu nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Iðunn Björg Arnaldsdóttir nemandi á náttúrufræðibraut með framúrskarandi árangur, þ.e. 9,82. Iðunn Björg hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í líffræði og efnafræði auk þess að hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Semidúx var Lóa Floríansdóttir Zink sem útskrifaðist af opinni braut með 9,61 í meðaleinkunn en hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku.
Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Kristín Taiwo Reynisdóttir og Pjetur Már Hjaltason. Fulltrúi 40 ára stúdenta, Ármann Höskuldsson prófessor, flutti ávarp fyrir þeirra hönd.
Kór skólans var í stóru hlutverki undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar og flutti nokkur verk auk þess sem aðrir nemendur og nýstúdentar fluttu tónlist.
27.05.2022
Dagana 22.-25. maí fór hópur úr MH til Berlínar, en með ferðinni lauk svokölluðum Berlínaráfanga þar sem nemendur hafa alla önnina verið að kynna sér þessa mögnuðu borg, sögu hennar og menningu. 13 nemendur og 2 kennarar fóru í ferðina, sem heppnaðist mjög vel. Dagskráin var þétt og margir áhugaverðir staðir heimsóttir, en einn af þeim var einmitt þinghúsið. Þar er hægt að ganga upp í glerhvelfinguna sem er ofan á húsinu og njóta stórfenglegs útsýnis yfir borgina. Það voru sælir en þreyttir ferðalangar sem komu heim frá Berlín og flestir höfðu á orði að þeir þyrftu að fara þangað fljótt aftur til að kynnast borginni enn betur.
25.05.2022
Brautskráning verður laugardaginn 28. maí kl. 13:00 en þá munu 136 brautskrást frá skólanum.
Myndataka fyrir útskriftarefni verður fyrir athöfnina fyrir framan myndlistarstofuna og hefst hún kl. 12:00. Æfing með útskriftarefnum er föstudaginn 27. maí kl. 17:30 og verða þá veittar nánari upplýsingar um skipulag brautskráningar.
Athöfninni verður streymt inn á eftirfarandi vefslóð: https://livestream.com/accounts/5108236/events/10432735
23.05.2022
MH fékk skemmtilega heimsókn á föstudaginn þegar hluti úskriftarárgangsins 1982 kíkti í heimsókn í gamla skólann sinn. Þau gengu um skólann og rifjuðu upp ýmislegt skemmtilegt um veru sína í skólanum. Margt hefur breyst og var mjög gaman að heyra sögur þeirra frá verunni í MH. Eftir að hafa gengið um skólann, stillti hópurinn sér upp fyrir myndatöku á sviðinu á Matgarði þar sem Sómalía stóð einu sinni. Einn úr hópnum hafði frétt að það vantaði mynd af útskriftarárgangi haust 1982 upp á vegg og færði skólanum hana að gjöf. Takk fyrir okkur og takk fyrir komuna.
19.05.2022
MH-ingurinn Mikael Norðquist bar sigur úr býtum í alþjóðlegri teiknikeppni sem var haldin í tilefni af vetrarólympíuleikunum í Kína. Það var Hongling Song kínverskukennari í MH sem hvatti nemendur til að taka þátt og úr varð að Mikael sendi inn mynd í keppnina. Mikael fékk verðlaunin afhent í Konfúsíusarstofnunni Norðurljós við hátíðlega athöfn. Við óskum verðlaunahafanum innilega til hamingju.
18.05.2022
Prófum er lokið og einkunnir munu birtast í Innu eftir kl. 16:00 í dag, 18. maí. Á morgun er staðfestingardagur þar sem nemendur geta hitt umsjónarkennarana sína og farið yfir valið fyrir næstu önn. Umsjónarkennarar eru við milli klukkan 10 og 11 og má sjá staðsetningu þeirra hér á heimasíðunni. Námsráðgjafar, námstjórar, áfangastjóri og konrektor verða einnig við ykkur til aðstoðar. Einhverjir þurfa að gera breytingar miðað við gengi vorannar og hvetjum við ykkur öll til að skoða valið ykkar vel miðað við árangur vorannarinnar. Prófsýning er milli 11:15 og 12:15 í auglýstum stofum.
16.05.2022
Sunnudaginn 15. maí kom kór skólans fram í Hörpuhorni í Hörpu á tónleikum en um var að ræða söngdagskrá fjögurra kóra. Kórfélagar tóku þessu tækifæri fagnandi enda lítið verið um tónleikahald á tímum COVID. Næst mun kórinn koma fram á brautskráningu skólans þann 28. maí næstkomandi.
02.05.2022
Í keppninni Ungir frumkvöðlar fékk lið frá MH verðlaun fyrir ,,Besta hönnunin“ í JA - ungir frumkvöðlar, fyrirtækjasmiðju 2022. Liðið skipa þau Dagur Steinarsson, Gylfi Maron Halldórsson og Hrefna Tryggvadóttir. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Arionbanka sl. föstudag. Nemendur höfðu bæði kynnt vöru fyrir dómara, tekið þátt í vörumessu og svo kynnt hugmyndina fyrir fullum sal og dómurum. Til hamingju öll.
02.05.2022
Í dag, mánudaginn 2. maí, er fyrsta prófið og eru það eðlisfræði og franska sem eru fyrst á dagskránni. Um helgina sendi prófstjóri póst á alla nemendur um hvernig á að bera sig að í prófunum og minnum við nemendur á að þið getið mætt í inn í prófsalina 10 mínútur fyrir próf. Allar nánari upplýsingar eru í pósti prófstjóra. Gangi ykkur sem best og njótið þess að rifja upp efnið sem þið hafið verið að vinna með alla önnina.