Fréttir

Diskóeyjan

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setur upp glænýja útgáfu af söngleiknum Diskóeyjunni eftir Braga Valdimar Skúlason nú í vor í samstarfi við Menntaskóla í tónlist. Leikstjórn er í höndum Öddu Rutar Jónsdóttur, Gísli Magna er söngstjóri og Sóley Ólafsdóttir dansstjóri. Sérvalin hljómsveit frá MÍT sér um tónlistarflutning en lifandi tónlist verður á öllum sýningum. Um 60 nemendur taka þátt í uppfærslunni.

Umhverfisfræði í vettvangsferð

Nemendur í umhverfisfræði í MH fóru í vettvangsferð og fengu tækifæri til að skoða starfsemi Íslenska gámafélagsins. Þau fengu fræðslu um flokkun og endurvinnslu og fengu að sjá hvernig flokkunin virkar. Þau sáu meðal annars hvernig unnið er með textíl, málm, plast og pappír.

Breytingar á yfirstjórn skólans

Um miðjan febrúar verða breytingar á yfirstjórn skólans þegar Steinn hverfur til annarra starfa hjá Reykjavíkurborg og Helga konrektor mun taka við sem settur rektor. Guðmundur Arnlaugsson IB-stallari mun taka við starfi konrektors á sama tíma og Alda Kravec mun koma inn í stjórnun IB-deildar. Við óskum Steini til hamingju með nýja starfið og vonum að honum líði eins vel þar og hjá okkur í MH.

Gulir skápar

Nemendur eiga kost á að leigja skápa undir skólabækurnar sínar eða nota skápa sem þau læsa sjálf með eigin lás. Þau sem voru með gulan skáp á haustönn þurfa að endurnýja fyrir vorönnina og kostar það 500 kr. Þau sem ekki ætla að halda áfram með gula skápinn þurfa að skila inn lyklinum og fá þá endurgreiddar 1500 kr.

Stundatöflur og töflubreytingar

Gleðilega önn. Opnað hefur verið fyrir stundatöflur hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin. Töflubreytingar eru opnar í Innu til og með 4. janúar fyrir þau sem þurfa nauðsynlegar breytingar. Ef einhver þarf töflubreytingu eftir þann tíma, þá þarf viðkomandi að koma við á skrifstofunni og hitta námstjóra eða námsráðgjafa. Nýnemar vorannar geta ekki breytt stundatöflum í Innu heldur þurfa að koma við hjá námstjórum í dag eða á morgun.