10.03.2025
Valvika stendur yfir til 17. mars. Upplýsingar um námsframboð er að finna á heimasíðu skólans. Föstudaginn 14. mars er valtími fyrir nemendur þar sem hægt er að hitta umsjónarkennara til að fá aðstoð við valið.
06.03.2025
Takk öll sem komuð í heimsókn í dag á opið hús. Gestrisnir MH-ingar sýndu ykkur húsnæðið okkar, leikfélagið sýndi brot úr Diskóeyjunni sem verður frumsýnd 14. mars og nemendaráðin tóku ykkur opnum örmum á Matgarði. Kennarar og nemendur sýndu ykkur kræsingarnar á áfangahlaðborðinu okkar og dansarar og söngvarar sýndu listir sínar eins og þeim einum er lagið. Það var ótrúlega gaman að taka á móti ykkur, takk fyrir komuna.
05.03.2025
Miðvikudaginn 12. mars verður Karen með námsbókahitting þar sem nemendum býðst að koma með námsefnið sitt og skoða það með jafnréttisgleraugum. Hittingurinn er hannaður í anda frelsandi menntunarfræða - með rödd nemenda að leiðarljósi. Hugsunin er þannig að veita nemendum vettvang til þess að ræða þessi mál og styðja við þeirra gagnrýnu hugsun.
04.03.2025
Geir Finnsson, enskukennari við MH, ræddi um notkun gervigreindar í skólastarfi í Kastljósi, fimmtudaginn 27. febrúar.
03.03.2025
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að gerð nýs kynningarmyndbands fyrir okkur í MH. MH-ingar voru mjög viljugir að taka þátt og sýna þar með hversu vænt þeim þykir um skólann sinn. Kynningarmyndbandið gerði Bjarki Jóhannsson kvikmyndagerðarmaður og þökkum við honum og öllum sem tóku þátt, kærlega fyrir. Endilega kíkið á myndbandið.
26.02.2025
Guðmundur Flóki Sigurjónsson, MH-ingur vann til verðlauna um helgina á rúmlega 800 manna alþjóðlegu taekwondomóti sem fram fór í Slóveníu. Mótið gildir til stiga á heimslistanum.
Keppendur Íslands voru þrír að þessu sinni; þau Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Leo Anthony Speight sem kepptu í fullorðinsflokki og svo Guðmundur Flóki Sigurjónsson sem keppti í unglingaflokki. Þetta er fyrsta mótið sem liðið fer á undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Rich Fairhurst, sem kemur yfir frá breska landsliðinu.
21.02.2025
Vetrarfrí verður í MH mánudaginn 24. febrúar og þriðjudaginn 25. febrúar. Skrifstofan verður lokuð og vonumst við til að þið öll njótið frísins og komið fersk til baka og tilbúin í seinni hluta annarinnar.
20.02.2025
Opið hús fyrir fyrir 10. bekkinga og fjölskyldur sem vilja kynna sér lífið í MH. Kynningar á námsframboðinu í skólanum verða á Miklagarði og Miðgarði og verður hægt að spjalla við nemendur, kennara, námsráðgjafa og stjórnendur um allt sem ykkur dettur í hug. Hver námsgrein mun vera með sinn kynningarbás og sýna sínar allra bestu hliðar t.d. hvaða efni er verið að kenna, hvaða bækur er verið að nota og hvernig verkefni er verið að leysa.
Nemendur skólans bjóða upp á kynnisferðir um skólann og á Matgarði vera ráðin í NFMH með kynningar á starfseminni sinni. Nánari dagskrá kemur síðar.
Endilega kíkið í heimsókn og við tökum vel á móti ykkur.
12.02.2025
Mánudaginn 10. febrúar flutti Helga Jóhannsdóttir konrektor sig yfir á skrifstofu rektors til að gegna því embætti næsta árið. Guðmundur Arnlaugsson IB-stallari sá sér þá leik á borði og flutti úr skrifstofunni sinni á skrifstofu konrektors og mun leysa Helgu af næsta árið. Þar með losnaði stóll IB-stallara og Alda Kravec enskukennari sló til og flutti á skrifstofu IB-stallara. Helgu, Guðmundi og Öldu óskum við öllum góðs gengis og erum spennt að fylgjast með þeim á nýjum vígstöðvum.
12.02.2025
MH-ingar báru sigur úr býtum í Morfís á móti MR-ingum í átta liða úrslitum 11. febrúar síðastliðinn. Lið MH skipa þau Hekla Gná Tjörvadóttir, Illugi Vilhelmsson, Auður Salka Ríkarðsdóttir og Saga Evudóttir Eldarsdóttir. Ræðumaður kvöldsins var Hekla Gná og óskum við henni og liðinu innilega til hamingju.