26.11.2018
Þann 1. des nk. mun kór skólans taka þátt í tónleikum í Hörpu sem bera yfirskriftina „Íslendingasögur: Sinfónísk sagnaskemmtun“ sem er haldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins en það er ríkisstjórn Íslands sem býður þjóðinni til veislu sem verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst kl. 20:00. Það er sannarlega heiður fyrir kór skólans að vera þátttakandi í þessari tónlistarveislu sem stór hluti þjóðarinnar mun horfa á.
19.11.2018
Helga Jóhannsdóttir sem er settur konrektor í MH á haustönn hefur verið ráðin konrektor frá 1. janúar 2019.
Helga hefur víðtæka reynslu af kennslu, af námsefnis- og námskrárgerð í framhaldsskóla og hefur verið settur áfangastjóri 2017-2018. Helga útskrifaðist sem stúdent frá MH 1985 og hóf kennslu við MH 1993 að loknu háskólanámi.
19.11.2018
Stöðupróf í norsku/sænsku verða haldin laugardaginn 8. des. kl. 10:00. Próftakan kostar kr. 12.000-.
Próftakar þurfa að millifæra prófgjaldið inn á 0323-26-106, kt. 460269-3509, fyrir kl. 12:00 7. desember og mæta með kvittun fyrir millifærslunni í prófið, ásamt skilríkjum. Þegar millifærsla á sér stað, þá vinsamlega tilgreinið í skýringu kennitölu próftaka. Skráning fer fram í gegnum viðburðir sem er að finna hægra megin á heimasíðu skólans.
Óski próftaki eftir að þreyta próf í öðrum skóla en MH þá þarf viðkomandi að fá leyfi fyrir próftöku í eigin skóla.
16.11.2018
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð verður með tónleika í kvöld 16. nóvember kl. 21:00 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Aðgangur er ókeypis.
16.11.2018
Í dag er dagur íslenskrar tungu. Við í MH munum halda hann hátíðlegan með uppákomu á sal. Hringt verður á sal klukkan 8:45 þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og íslenskufræðingur, mun heiðra okkur með nærveru sinni. Þar verður dagskrá undir stjórn íslenskudeildar MH.
Hafragrauturinn verður aðeins seinna á ferðinni en vanalega eða kl. 10:10
08.11.2018
Leikhússport keppnin Leiktu betur fór fram í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkvöldi. Það er ánægjulegt að segja frá því að MH-ingarnir María Kristín Árnadóttir, Diljá Nanna Guðmundsdóttir, Hólmfríður Hafliðadóttir og Inga Steinunn Henningsdóttir lentu í 3. sæti í spunakeppni framhaldsskólanna. Til gamans má geta þess að þjálfari sigurliðs MA er MH-ingurinn Hákon Jóhannesson. Til hamingju með okkar flotta fólk.
05.11.2018
Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram 10 október síðastliðinn. Okkar nemendur stóðu sig með ágætum og eigum við alls 5 fulltrúa af þeim 46 sem boðið er til þátttöku í lokakeppninni sem fram fer í mars á næsta ári; 2 á neðra stigi og 3 á efra stigi. Það er sérlega ánægjulegt að segja frá því að Tómas Ingi Hrólfsson og Emil Fjóluson Thoroddsen urðu í 1.-3. og 7. sæti á efra stigi. Einnig hlutu Bragi Þorvaldsson, Flosi Tómas Lyons og Heimir Páll Ragnarsson viðurkenningar fyrir góðan árangur. Við óskum þeim öllum til hamingju og góðs gengis í mars.