Fréttir

Brautskráning Menntaskólans við Hamrahlíð

Brautskráðir voru 155 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sjö námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 85 nemendur, 22 af náttúrufræðibraut, 13 af félagsfræðabraut, 3 af málabraut, 8 af listdansbraut, 2 af fjölnámsbraut og 21 nemandi af IB-braut (International Baccalaureate sem er alþjóðleg stúdentsbraut). Alls voru 17 nemendur brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Tómas Böðvarsson, stúdent af opinni braut, með einstakan námsárangur, þ.e. 10,0 í meðaleinkunn. Tómas hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í efnafræði og spænsku. Semidúx var Dröfn Ólöf Ingvarsdóttir sem útskrifaðist af opinni braut með með 9,77 í meðaleinkunn. Dröfn Ólöf hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í ensku og leiklist.

Brautskráning Menntaskólans við Hamrahlíð 26. maí kl. 13:00

Brautskráning verður föstudaginn 26. maí kl. 13:00 en þá munu tæplega 160 brautskrást frá skólanum. Æfing með útskriftarefnum er fimmtudaginn 25. maí kl. 17:30 og verða þá veittar nánari upplýsingar um skipulag brautskráningar. Athöfninni verður streymt inn á: https://livestream.com/accounts/5108236/events/10865403

Birting einkunna og staðfestingardagur

Prófum er lokið og einkunnir munu birtast eftir kl. 16:00 föstudaginn 19. maí. Mánudaginn 22. maí er staðfestingardagur þar sem nemendur geta hitt umsjónarkennarana sína og farið yfir valið fyrir næstu önn. Umsjónarkennarar eru við milli klukkan 10:00-11:00 og má sjá staðsetningu þeirra hér á heimasíðunni. Námsráðgjafar, námstjórar, áfangastjóri og konrektor verða einnig við, ykkur til aðstoðar. Einhverjir þurfa að gera breytingar miðað við gengi vorannar og hvetjum við ykkur öll til að skoða valið ykkar vel. Prófsýning er milli 11:15 og 12:15 í auglýstum stofum.

Lokaverkefni

Í MH geta nemendur valið að taka lokaverkefni í grein sem þau hafa lokið að lágmarki 15 einingum í. Þessa önnina voru 27 nemendur að taka lokaverkefni og dreifast þau á 9 faggreinar. Nemendur velja sjálf hvað þau vilja taka fyrir og er hugmyndaflugið óþrjótandi.

Veikindi á prófatíma

Ef nemendur eru veikir á prófdegi þá þarf að tilkynna það í gegnum Innu fyrir kl. 14 á sama degi og prófið er. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni Námið, próf, sjúkrapróf.

Prófin eru byrjuð

Prófin eru hafin í MH og því nóg að gera við prófundirbúning bæði hjá starfsfólki og nemendum. Á meðan á prófatímabili stendur er lokað á einkunnir í Innu sem þýðir að nemendur sjá ekki lokaeinkunnir í áföngum. Ef einhverjar einkunnir sjást þá eru þær ekki endanlegar fyrr en tilkynnt hefur verið um það, eftir kl. 16:00, 19. maí og þær keyrðar inn í feril. Gangi ykkur sem best í prófunum.