30.11.2022
Fyrsti prófdagur er á morgun 1. desember og vonandi verðið þið öll til í slaginn. Ef svo óheppilega vill til að þið verðið veik á prófdegi þá þarf að tilkynna það í Innu samdægurs, fyrir kl. 14.00. Passa þarf upp á að skrifa í athugasemd í hvaða prófi veikindin eru.
29.11.2022
Í dag var síðasti kennsludagur haustannar 2022. Á morgun er námsmatsdagur þar sem kennarar vinna að námsmati og nemendur fá tækifæri til að skipuleggja prófatörnina sem framundan er. Gangi ykkur sem best í prófunum.
24.11.2022
Í dag var boðið upp á síðasta hafragraut annarinnar. Guðmundur IB stallari og Dagný forstöðukona bókasafnsins sáu um að ausa grautinn og buðu að sjálfsögðu líka upp á rúsínur í tilefni jólanna. Hafragrauturinn þakkar fyrir sig þessa önn og mætir aftur til leiks á nýju ári.
23.11.2022
Hafragrauturinn er í jólabúningi þessa vikuna þar sem boðið er upp á rúsínur til að setja út á grautinn og ausarar grautsins klæðast jólasvuntum.
16.11.2022
Í MH var haldið upp á dag íslenskrar tungu með því að bjóða nemendum á sal og hlusta á útskrifaða MH-inginn Elínu Elísabetu segja frá Jónasi Hallgrímssyni, hlusta á kórinn og taka þátt í fjöldasöng.
15.11.2022
MH hefur nú lokið fjórum Grænum skrefum af fimm í samnefndu verkefni á vegum Umhverfisstofnunar sem snýst um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi skólans.
14.11.2022
Forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram 4. október síðastliðinn, í öllum framhaldsskólum samtímis. Þrír MH-ingar urðu í efstu 16 sætunum á neðra stigi og einn á efra stigi. Þessara nemenda bíða mörg óleyst stærðfræðidæmi sem eru ætluð til undirbúnings fyrir aðalkeppnina sem verður í vor. Góða skemmtun og gangi ykkur sem best.
08.11.2022
Próftafla nemenda er tilbúin og geta nemendur skoðað próftöflu sína í Innu. Próftaflan í heild sinni er sýnileg á heimasíðunni.
03.11.2022
Nemendur MH geta bókað tíma hjá námsráðgjöfum, sálfræðingi skólans eða hjúkrunarfræðingi í gegnum bókunarkerfi sem er á heimasíðunni undir hnappnum Bóka tíma, vinstra megin á síðunni.