Fréttir

Einkunnir og staðfestingardagur

Opnað verður fyrir einkunnir í dag kl. 16:00. Um leið verður opnað fyrir að nemendur geti staðfest valið sitt í Innu. Áður en þið staðfestið þurfið þið að skoða valið ykkar vel og athuga t.d. hvort að þið hafið fengið hraðferðarheimild í ENSK3CH05 eða ÍSLE3CH05 og breyta valinu skv. því. Á morgun, 18. desember, er staðfestingardagur sem hefst með fundi nemenda við umsjónarkennara sína og prófsýning sem hefst kl. 11:15 og er til 12:15. Sjá nánar hér á heimasíðunni.

Home alone

Sinfóníuhljómsveit Íslands, ásamt kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Kammerkórnum Huldur eru þessa dagana að flytja töfrandi og æsispennandi tónlist John Williams á meðan uppáhalds jólamynd margra kynslóða, Aleinn heima eða Home Alone er sýnd í Hörpu. Hreiðar Ingi Þorsteinsson er kórstjóri beggja kóranna og þarna er enn eitt skemmtilega samstarfið í gangi. Frábærir tónleikar sem gefa myndinni enn jólalegri blæ.

MH aðili að samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu í Reykjavík

MH ásamt framhaldsskólunum í Reykjavík er aðili að samstarfsyfirlýsingu vegna barna í viðkvæmri stöðu í Reykjavík. Yfirlýsingin miðar að því að þróa áfram samvinnu á grundvelli laga og stefnu Reykjavíkurborgar til að tryggja umönnun og vernd barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Að sækja gull í prófundirbúningi

Nú þegar prófin standa yfir er mikilvægt að huga vel að líkama og sál. MH-ingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson gerði það með óhefðbundnum hætti núna um helgina þegar hann hélt til Rúmeníu á Balkan Open mótið í taekwondo. Þar gerði hann sér lítið fyrir og sigraði sinn flokk örugglega. Til hamingju með árangurinn!

Veikindi á prófatíma

Veikindi á prófdegi verður að tilkynna samdægurs, fyrir kl. 14:00, í gegnum Innu, alveg á sama hátt og gert er þegar kennsla stendur yfir. Nauðsynlegt er að tilgreina heiti áfangans í athugasemd. Í lok hvers prófdags fer prófstjóri yfir skráðar veikindatilkynningar í Innu, staðfestir þær og veitir upplýsingar um sjúkraprófstíma. Staðfestingin sést í Innu viðkomandi nemenda og forsjáraðila og kemur einnig fram í tölvupósti. Prófstjóri hefur netfangið profstjori@mh.is og er með viðtalstíma milli 10 og 11 alla daga. Sjúkrapróf eru gulmerkt á próftöflunni og hefjast í flestum tilfellum kl. 14:00. Athugið að þetta á ekki við um sjúkrapróf fyrir IB og Fjölnámsbraut. Nemendur sem eru forfallaðir af öðrum orsökum en veikindum þurfa að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 595-5200.

Próf

Lokaprófin hófust í dag 2. desember skv. próftöflu. Nemendur sjá sína eigin próftöflu í Innu og þar kemur líka fram klukkan hvað prófin byrja. Nemendur sem hafa sótt um að breyta prófi þurfa að athuga að próftaflan í Innu hefur ekki breyst og allar upplýsingar um breyttan próftíma er í tölvupósti til hvers og eins frá prófstjóra. Passið vel upp á að skoða þetta vel svo þið missið ekki af prófi. Allir nemendur fengu tölvupóst frá prófstjóra þar sem farið er yfir helstu atriði varðandi próftökur í MH. Þar er einnig hlekkur á HVAR PRÓFIN ERU STAÐSETT Í HÚSINU HVERJU SINNI . Þessar upplýsingar verða einnig settar á upplýsingaskjáina í skólanum - skólaskjáinn. Gangi ykkur sem best og munið að huga vel að hreyfingu, næringu og svefni á meðan á prófatímabili stendur.

Nýr skólastjórnarfulltrúi NFMH

Nemendur í MH kjósa skólastjórnarfulltrúa einu sinni á ári. Nýr skólastjórnarfulltrúi heitir Guðrún Lilja Ólafsdóttir og er nemandi á öðru ári í MH. Skólastjórnarfulltrúi er fulltrúi nemenda á skólastjórnarfundum og kemur hann hugmyndum nemenda á framfæri. Um leið og við bjóðum Guðrúnu Lilju velkomna til starfa þá þökkum við Eyju fyrir hennar störf.

Skuggakosningar

Í dag ganga nemendur MH til skuggakosninga. Skuggakosningar eru kosningar þar sem framhaldsskólanemar kjósa sína fulltrúa á Alþingi og munu endurspegla vilja nemenda um allt land. Skuggakosningar fara fram í fimmta sinn hér á landi þann 21. nóvember. Niðurstöður verða gerðar opinberar eftir að kjörstöðum lokar á kjördag alþingiskosninga, 30. nóvember. Nemendur í stjórnmálafræði sjá um framkvæmdina í MH og er hægt að kjósa til kl. 16:00. 

Heimsókn í Hæstarétt

Nemendur í stjórnmálafræði fóru í áhugaverða heimsókn í Hæstarétt í dag. Nemendur fjölmenntu og sýndu mikinn áhuga og spurðu góðra spurninga. Lesa má meira um heimsóknina á heimasíðu Hæstaréttar

Afrek í sundi

Snævar Örn Kristmannsson nemandi í MH og nemandi í Menntaskólanum í tónlist vann til 10 verðlauna á Íslandsmeistaramótinu í sundi um helgina. Hann fékk tvö silfur og tvö brons í unglingaflokki og eitt silfur og eitt brons í opnum flokki karla. Auk þess varð hann fjórfaldur Íslandsmeistari fatlaðra á sama móti. Til hamingju með glæsilegan árangur.