Fréttir

Spennandi dagur

Í dag er síðasti prófdagur skv. próftöflu og eru nemendur í frönsku og eðlisfræði væntanleg í hús af því tilefni. Klukkan 14 í dag munu nemendur sem lært hafa þýsku í MH mæta í stofu 27 þar sem þýskudeildin stendur fyrir vinnustofu með þýskum söngvara að nafni Darius Zander. 

Vörpum fjólubláu út í umhverfið

Fjólublár er litur alþjóðlegrar réttindabaráttu fatlaðs fólks og er Menntaskólinn við Hamrahlíð upplýstur með fjólubláum kösturum til að sýna stuðning. Markmiðið er upplýst samfélag – ekki aðeins þessa daga heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfsagðra réttinda.

Lokapróf haustannar

Lokaprófin hefjast mánudaginn 4. desember skv. próftöflu. Fyrstu prófin eru enska og heimspeki og svo koma fögin koll af kolli. Nemendur sjá sína eigin próftöflu í Innu og þar kemur líka fram klukkan hvað prófin byrja. Passið vel upp á að lesa þetta vel svo þið missið ekki af prófi. Allir nemendur fengu tölvupóst í dag frá prófstjóra þar sem farið er yfir helstu atriði varðandi próftökur í MH. Gangi ykkur sem best og munið að huga vel að hreyfingu, næringu og svefni á meðan á prófatímabili stendur.

Síðasti kennsludagurinn liðinn

Í dag var síðasti kennsludagur haustannar 2023 og notuðu tilvonandi stúdentar tækifærið og kvöddu skólann sinn. Restina af deginum nota þau til að gera sér dagamun áður en prófatörnin hefst á mánudaginn. Góða skemmtun í dag og takk fyrir okkur.

Þekking, ábyrgð, virðing og víðsýni

Í vor var efnt til samkeppni um listaverk á vegg á Matgarði sem átti að sýna gildi skólans. Hugmyndin hennar Heiðu Maríu Hannesdóttur var valin og hefur hún verið að mála það núna á haustönninni. Í dag afhenti hún svo verkið og tók Steinn rektor stoltur við því. Verkið er stórglæsilegt og má lesa gildi skólans í ramma þess. Takk kærlega Heiða María fyrir alla þína vinnu. Heiða María á einnig listaverk sem er á bókasafninu og sést í fréttinni hér fyrir neðan.

Sokkur EHF

Nemendur í frumkvöðlafræði komust í úrslit í MEMA nýsköpunarhraðlinum 2023 með verkefnið Sokkur EHF. Hugmyndin gengur út á að hreinsa plast og annað rusl úr ám og lækjum áður en það rennur út í sjó. Í keppninni áttu nemendur að vinna með 14. Heimsmarkmiðið "Líf í vatni". Til hamingju með árangurinn MH-ingar.

Jafnréttisfræðsla í MH

Jafnréttisfræðsla var fyrirferðarmikil hjá okkur í nóvember. Karen jafnréttisráðgjafi heimsótti nýnemana okkar í lífsleikni og fór yfir kynheilbrigðismál með þeim, samþykki og mörk. Hún var einnig með jafnréttisfræðslu fyrir útskriftarefnin og ræddi þar um forréttindi og mismunun innan kynjakerfisins. Þetta var svo toppað þegar nýnemahóparnir og útskriftarefnin sameinuðust á Miklagarði en þar var baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir komin til þess að fræða hópana um stafrænt samþykki.

Síðasta kennsluvikan runnin upp

Það kemur alltaf jafnmikið á óvart þegar síðasta kennsluvika rennur upp í allri sinni dýrð. Þessa viku nota nemendur og kennarar til að klára efnið, spyrja spurninga og líta yfir farinn veg. Á föstudaginn er síðasti kennsludagur og í kennslustund kl. 11:40 verður skemmtun á sal, þar sem útskriftarefni haustannar fá tækifæri til að kveðja okkur hin sem eftir verðum. Engin kennsla verður því í þeirri kennslustund.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag, 16. nóvember, er dagur íslenskrar tungu og verður ýmislegt í gangi í MH í dag. Lopapeysa flestra MH-inga fékk að koma með í skólann í dag og er gaman að sjá hversu margar útfærslur eru til af þessari íslensku peysu. Í hádeginu verða tónleikar á sal þar sem kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hreiðar Ingi Þorsteinsson kórstjóri og Jónas Hallgrímsson munu leiða saman hesta sína. Í kvöld verða svo tónleikar þar sem kórinn okkar og kór Menntaskólans að Laugarvatni munu skemmta okkur með fallegum söng. Tónleikarnir byrja kl. 20:30 og er aðgangur ókeypis. Til hamingju með daginn.

Öryggismyndavélar

Í og við MH eru 13 öryggismyndavélar. Þær eru staðsettar við innganga, á göngum skólans og á Matgarði. Lóð skólans er einnig vöktuð á völdum stöðum. Sérstakar merkingar eru við innganga skólans, sem og við innkeyrslur inn á bílastæðin, til að þeir sem eiga leið um viti af tilvist myndavélanna.