MH-ingar klæddust bleiku þennan dag til að sýna samhug og samstöðu vegna fráfalls nemanda í Verslunarskóla Íslands og mótmæla öllu ofbeldi af hvaða tagi sem er.
Félagslífið byrjar með krafti hér í MH og það má með sanni segja að samheldni einkennir andrúmsloftið í skólanum. Nemendaráðin eru að hefja starfsemi sína og annasamur vetur bíður þeirra. Í tilefni þess var meðlimum þeirra boðið á sérstakan hádegisfund á fimmtudaginn þar sem þau fengu kynningu á ýmsum stuðningi sem ráðunum býðst innan skólans. Nemendur gæddu sér á samlokum á meðan þau hlustuðu á nokkur vel valin örerindi frá Halldóru Sigurðardóttur persónuverndarfulltrúa, Önnu Eir félagsmálafulltrúa og Þórunni félagsmála- og forvarnarfulltrúa, Karen jafnréttis- og samskiptaráðgjafa, Sólrúnu sálfræðingi, ásamt orðsendingum frá Elínu hjúkrunarfræðingi og Kalla húsverði. Við hlökkum til að starfa með þessum flottu fulltrúum í vetur!