Starfsfólki var boðið upp á köku í tilefni af 4. Græna skrefinu.
MH hefur nú lokið fjórum Grænum skrefum af fimm í samnefndu verkefni á vegum Umhverfisstofnunar sem snýst um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi skólans. Skólinn hefur sett fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og vinnur nú að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með ýmsu móti. Til dæmis er ætlunin að minnka magn sorps og auka endurnýtingarhlutfall þess, fjölga samgöngusamningum við starfsfólk, minnka kolefnisspor vegna ferðalaga og kolefnisjafna alla losun. Strax verður hafist handa við að innleiða fimmta skrefið en í því felst að skólinn byggir upp eigið umhverfisstjórnunarkerfi. Slíkt kerfi samanstendur af þáttum eins og umhverfis- og loftslagsstefnu, markmiðum og aðgerðaáætlun, fræðslu, hlítingu laga á sviði umhverfismála, skjalfestum verklagsreglum um þessa þætti ásamt eftirfylgni og stöðugri umbótavinnu. Ljóst er að þótt verkefninu um Græn skref ljúki með fimmta skrefinu þá lýkur umhverfisstarfi skólans aldrei, fremur en hjá öðrum ábyrgum aðilum samfélagsins.