Þýskuþraut

Hin árlega þýskuþraut framhaldsskólanna var haldin rétt fyrir samkomubann. Við í MH áttum að þessu sinni 4 verðlaunahafa en veitt eru verðlaun fyrir 15 efstu sætin.  63 nemendur úr mörgum framhaldsskólum víðsvegar um landið tóku þátt, þar af 8 nemendur í MH og hreppti MH-ingurinn Ragnhildur Björt Björnsdóttir önnur verðlaun, sem er frábær árangur. Hún fékk að launum 4 vikna dvöl sumarið 2020 í Þýskalandi á vegum þýska ríkisins með öðrum ungmennum frá öllum heimshornum. Því miður þurfti að blása ferðina af þetta árið vegna kórónuveirufaraldursins sem öllum þykir að sjálfsögðu mjög leitt. Aðrir MH-ingar í verðlaunasætum voru Páll Ísak Ægisson sem lenti í 6. sæti, Guðlaug Fríða Helgadóttir Folkmann sem lenti í 9. sæti og Vala Ástrós Bjarnadóttir sem lenti í 10. sæti.  Guðlaugu Fríðu var svo í framhaldinu boðið að taka þátt í Eurocamp en það er tveggja vikna dvöl í sumar í Þýskalandi með ungmennum 18 ára og eldri og þar kemur einnig saman fólk frá mörgum löndum í boði þýskra stjórnvalda.  Við vonum svo sannarlega að sú ferð verði ekki blásin af líka. Virkilega vel gert hjá okkar fólki og átti MH flesta verðlaunahafa þetta árið og hljóta þau öll bókaverðlaun. Við erum öll, sérstaklega þýskukennarar MH, Valgerður, Guðrún og Katharina, ákaflega stolt og ánægð með árangur okkar nemenda.