Staða áfanga:
Áfanginn er valáfangi á náttúrufræðibraut.
Stutt lýsing á efni áfangans:
Áfanginn er framhaldsáfangi í ólífrænni efnafræði þar sem áhersla er lögð á að:
· kynna nemendum eðli og eiginleika mikilvægra frumefna og efnasambanda, framleiðslu þeirra og notagildi.
· tengja saman, útvíkka og dýpka skilning á efnisþáttum sem kynntir hafa verið í fyrri áföngum, auk þess sem nýtt efni bætist við.
· þjálfa nemendur í dæmavinnu þar sem m.a. er fengist við samþætt og nokkuð flókin verkefni og þrautir.
· undirbúa, framkvæma og vinna úr allviðamikilli tilraun og skrifa um hana skýrslu.
Eitt meginmarkmið áfangans er að búa nemendur sem allra best undir allt efnafræðitengt framhaldsnám í háskóla.Í áfanganum reynir á sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum og ekki síður eru þeir hvattir til samvinnu sín á milli og hjálpsemi við úrlausn flóknari verkefna.
Nokkur lykilhugtök áfangans:
Efnisfræði málma og málmleysingja, lotubundnir eiginleikar, sjálfgengni efnahvarfa, óreiða og fríorka, fjölvirk efnajafnvægi, hraðafræði, einingarsellur kristala, rafeindir á d-svigrúmum, málmkomplexar, tengitölur og lögun komplexa, segulvirkni og litir.
Námsmat:
Námsmat byggir að jöfnu á tveimur hlutaprófum á önninni annarsvegar og vinnu nemenda (tilraunir, skýrslur, dæmavinna, skilaverkefni og önnur verkefni) hinsvegar.