Staða áfanga:
Áfanginn er valáfangi í íslensku á þriðja hæfniþrepi.
Stutt lýsing á efni áfangans:
Í áfanganum þjálfast nemendur í ritun ólíkra gerða ritsmíða. Mest áhersla er lögð á listræn skrif, bæði í lausu og bundnu máli, en einnig er fengist við að skrifa nytjatexta af ýmsu tagi. Þá fá nemendur þjálfun í að búa texta sína til birtingar, bæði á prenti og rafrænt.
Áfanginn er að hluta til í formi ritsmiðju þar sem nemendur lesa texta félaga sinna og fjalla um þá á gagnrýninn og uppbyggilegan hátt svo hægt sé að betrumbæta þá smátt og smátt. Mikil áhersla er lögð á ferlið frá hugmynd til fullbúins texta.
Nokkur lykilhugtök:
Sköpun, samvinna, gagnrýnin hugsun, ritun sem ferli, traust
Námsmat:
Áfanginn er próflaus. Þess vegna eru strangar reglur um mætingu og ástundun. Námsmat byggist á vinnu og framförum nemenda á önninni og á verkefnaskilum. Krafist er virkni og þátttöku alla önnina.