MENT3AV05 - Mentorverkefni

Staða áfanga:

Áfanginn getur staðið sem sálfræðiáfangi í kjörgrein á opinni braut.

Stutt lýsing á áfanganum:

Mentorverkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að samskipti barns og mentors séu jákvætt innlegg í líf barnsins því mentorinn verði barninu fyrirmynd og veiti því stuðning. Að taka þátt í mentorverkefninu snýst um að gefa sjálfum sér tíma með barni, leyfa sér að læra af samskiptum við barn og taka þátt í lífi þess. Hlutverk mentora er ekki að vera fagaðili á ákveðnu sviði heldur að skapa trúnað og traust, sýna samkennd, tillitssemi og tengja saman virkni og hlýju í leik og starfi. Tengslin sem myndast milli mentors og barns geti því bætt við möguleika barnsins við mótun sjálfsmyndar sem komi fram m.a. í meiri námsáhuga og árangri auk aukinnar lífsleikni. Þessi tengsl skapar mentorinn fyrst og fremst með því að skipuleggja uppbyggjandi og skemmtilegar samverustundir í samráði við barnið og foreldra þess. 

Áhersla er lögð á gagnkvæman ávinning og hagsmuni samfélagsins í heild af því að börn og ungmenni kynnist og læri af aðstæðum hver annars. Í mentorverkefninu Vináttu eru gerðar kröfur til nemenda um að þeir setji sér skýr markmið, sýni frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og séu skapandi í hugsun.

Mentorar verja þremur stundum á viku með grunnskólabarni á aldrinum 7-10 ára frá október fram í apríl. Mentorverkefnið er heilsársáfangi sem byrjar á haustönn og lýkur við lok næstu vorannar (ágúst-apríl). Mentorar þurfa að hafa náð 18 ára aldri við upphaf verkefnisins.

Námsmat:

Samverustundir með mentorbarni, dagbækur, lokaverkefni, þátttaka í hópfundum og mæting á sameiginlega viðburði.