MYNL2AB05 - Litafræði, myndbygging og myndgreining

Staða áfanga:

Áfanginn er ásamt MYNL2AT05 undanfari fyrir áfanga á þriðja þrepi í myndlist.

Stutt lýsing á efni áfangans:

Áfanganum er skipt upp í fjóra hluta með áherslu á lita- og formfræði, myndbyggingu og myndgreiningu. Unnið er út frá fjórum meginatriðum: skynjun, innsæi, tjáningu og greiningu. Í litafræðihluta áfangans er notast við hugmyndir Johannes Itten og Josef Albers, nemendur vinna margskonar litafræðiverkefni unnin út frá þeirra kenningum.

Lögð er áhersla á grunnhugtök formfræðinnar og í framhaldi er farið í helstu grunnþætti myndbyggingar, form, línur, liti, skerpu, fjarvídd ásamt myndbyggingaraðferðum eins og gullinsniðið, hringlaga myndbygging, lóð- og lárétt myndbygging.

Nemandi lærir að þýða myndrænar upplýsingar yfir í orð, og öfugt, bæði út frá fyrirlestrum kennara og verklegum æfingum. Undir lok áfangans vinnur nemandi myndgreiningarfyrirlestur út frá litafræði, myndbyggingu og inntaki myndlistarverks. Nemendur lesa yfir fyrirlestra samnemenda sinna og skrifa endurgjöf.

Nokkur lykilhugtök áfangans:

Skynjun, innsæi, tjáning, greining, litaskynjun, bylgjulengd lita, birtumagn lita, litahringur, andstæðir, tvenndar og þrenndar litir, hliðstæðir litir, myndleifar, litablöndun, skerpa litatóna, skerpa ljóss og skugga, skerpa heitra og kaldra litatóna, skerpa andstæðra lita, skerpa samhliða lita, skerpa út frá mettun, punktur, lína, flötur, massi, form, tónn, rými, áferð, línur, fjarvídd, hæð, dýpt, for-, mið- og bakgrunnur, fókuspunktur, jákvætt og neikvætt rými, klassískt jafnvægi, lóð- og lárétt myndbygging, rúðustrikuð myndbygging, þríhyrningslaga myndbygging, ferhyrningslaga myndbygging, hringlæg myndbygging, skálæg myndbygging, gullinsnið, gyllti þríhyrningurinn, þriðjungsreglan, samhverf myndbygging, geislótt myndbygging, dreifð myndbygging.

Námsmat:

Önninni er skipt upp í nokkra hluta: formfræði, myndbyggingu, litafræði, sjö aðferðir við að skapa skerpu og myndgreiningu. Ný verkefni eru lögð fyrir vikulega. Unnið er með leiðsagnarmat og símat í kennslustundum. Nemendur skila af sér verkefnum fjórum sinnum yfir önnina með áherslu á hvern hluta fyrir sig.

Nemendur skila verkefnum jafnt og þétt yfir önnina. Í fyrrihluta annar skila nemendur af sér form- og myndbyggingarverkefnum. Um miðja önn skila nemendur af sér litafræðiverkefnum og undir lok annar skila nemendur af sér verkefni sem kallast sjö leiðir til að skapa skerpu ásamt myndgreiningafyrirlestri.