Áfanginn er fyrsti áfangi í sænsku á menntaskólastigi fyrir framhaldsskólanemendur sem hafa lokið grunnskólaprófi í viðkomandi máli á Íslandi eða lokið grunnskóla annars staðar á Norðurlöndum og hafa mjög góða kunnáttu í tungumálinu. Kennt er á sænsku.
Nemendur sem skrá sig í sænsku fara í matspróf (könnunarpróf) í fyrsta tíma og nemendum er skipt í hópa eftir niðurstöðu matsins. Nemendur sem ná hárri einkunn á prófinu býðst að taka áfangann í hraðferð og mæta í færri tíma.
Stutt lýsing á áfanganum:
Áhersla er lögð á vandlegan lestur fræðitexta með það fyrir augum að nemendur byggi upp virkan og hagnýtan orðaforða. Nemendur lesa tvær skáldsögur á sænsku í áfanganum og skrifa bókmenntaritgerðir um þær í tíma. Helstu hugtök bókmenntagreiningar eru rædd og áhersla lögð á að nemendur læri að tjá hugsanir sínar skýrt í riti og rökstyðja skoðanir sínar. Nemendur eru hvattir til sjálfstæðra vinnubragða og til að bera ábyrgð á eigin námi.
Námsmat: Byggist á bókmenntaritgerðum í tíma (samtals 40%), hlutaprófi (10%) og lokaprófi (50%).