Foreldraráð - starfsreglur

Foreldraráð MH var stofnað á stofnfundi foreldra sem haldinn var 2. október 2008.  Á fundinum var kosin þriggja manna stjórn Foreldraráðs Menntaskólans við Hamrahlíð (MH) ásamt tveimur varamönnum.

Starfsreglur ráðsins eru eftirfarandi:

Félagið heitir Foreldraráð MH. Heimili félagsins og varnarþing er í Menntaskólanum við Hamrahlíð. 

Félagsmenn eru foreldrar og forráðamenn nemenda MH, nema þeir sem tilkynna að þeir óski ekki aðildar að félaginu.

Tilgangur ráðsins og markmið:

Tilgangur ráðsins er að stuðla að auknum gæðum skólans og leitast við að bæta jafnt almenn skilyrði og aðstæður  nemenda til menntunar og almenns þroska. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því meðal annars:

  • Að stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
  • Að efla samstarf milli foreldra um málefni sem varða velferð, menntun og þroska nemenda.
  • Að vera vettvangur samstarfs og samráðs foreldra og forráðamanna nemenda.
  • Að auka sýnileika og nánd foreldra/forráðamanna sem veiti yfirvöldum, skólastjórnendum, kennurum og nemendum stuðning í skólastarfinu.
  • Að stuðla að góðu samstarfi foreldra og forráðamanna, nemendafélaga og starfsfólks skólans.
  • Að skapa farveg fyrir samskipti við stjórnendur skólans um málefni og hagsmuni ólögráða nemenda sérstaklega, bæði gagnvart námsaðstæðum og þjónustu af hálfu skólans.
  • Að hvetja til aukins stuðnings og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra.
  • Að vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.

Aðalfundur er æðsta vald í málefnum ráðsins og skal hann haldinn á fyrstu vikum skólaárs og eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Auglýsa skal aðalfundinn með 7 daga fyrirvara.

Stjórn: Á aðalfundi skal kosin stjórn, til eins árs í senn. Stjórn skiptir með sér verkum. Stjórn stýrir starfi ráðsins milli aðalfunda. Henni ber að halda fundargerðir og kynna störf sín m.a. með miðlun fundargerða og annarra upplýsinga í gegnum  heimasíðu skólans. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum við atkvæðagreiðslu og skal meirihluti stjórnarmanna vera viðstaddur afgreiðslu mála.

Stjórn félagsins hefur umboð til að kalla til almennra foreldrafunda um einstök málefni. Stjórnendum og starfsmönnum skólans skal heimilt að sækja foreldrafundi sem haldnir eru í nafni félagsins.

Heimilt er að taka við styrkjum frá opinberum aðilum og beita sér fyrir fjáröflun í þágu ráðsins. Heimilt er að stofna styrktarsjóð foreldraráðs MH. Valfrjálsum félagsgjöldum og styrkjum til félagsins skal varið í þágu foreldra og nemenda skólans og skal ráðstafa þeim á sama skólaári, þannig að fjárhæð sem færist á milli ára verði einungis að lágmarki til að hefja nýtt skólaár.

Stjórn leitar samkomulags við rektor varðandi varðveislu gagna foreldraráðsins, aðstöðu fyrir fundahöld og aðgang að nafnalistum, útsendingu gagna, upplýsingamiðlun á heimasíðu og aðra þætti er varða samskipti við foreldra almennt.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Nemendafélags MH.

Starfsreglum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi og skulu tillögur til breytinga berast stjórn a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund. Geta skal breytinga á starfsreglum í fundarboði og skal helmingur fundarmanna greiða löglega uppborinni breytingartillögu atkvæði til að hún teljist samþykkt.

Mun foreldraráðið hafa sérstaka stiklu á heimasíðu skólans þar sem verður að finna tilkynningar og sitthvað er að starfsemi ráðsins lýtur.

 

 

Síðast uppfært: 21. janúar 2022