Nafnabreytingar í Innu

Inna, námsvefur Menntaskólans við Hamrahlíð er tengd við gagnagrunn Þjóðskrár Íslands. Það þýðir að upplýsingar um nemendur birtast eins og þær eru skráðar hjá þjóðskrá. Þetta eru almennar upplýsingar á borð við fullt nafn, lögheimili og nöfn forsjáraðila. Hér má nálgast almennar upplýsingar frá MH um nafnabreytingar hjá Þjóðskrá Íslands. Þegar nemandi hefur breytt nafni sínu hjá þjóðskrá tekur það að jafnaði sólarhring að uppfærast í Innu. Til þess að tryggja yfirsýn og gott upplýsingaflæði er æskilegt að láta skólann vita um breytingarnar. Það má til dæmis gera með því að senda tölvupóst á umsjónarkennara eða stjórnendur. Jafnréttis- og samskiptaráðgjafi tekur einnig á móti slíkum upplýsingum.

Nemendur geta breytt nafni sínu í Innu án þess að nafnabreyting hafi farið fram í gegnum Þjóðskrá Íslands. Þar sem forsjáraðilar hafa aðgang að námsvef barna sinna fram að 18 ára aldri, sbr. rétt þeirra á aðgangi að upplýsingum um börn sín, hlíta beiðnir um nafnabreytingar innan MH eftirfarandi aldursreglum:

  • Nemandi undir 18 ára þarf samþykki forsjáraðila fyrir breytingu nafns í Innu.
  • Nemandi sem náð hefur 18 ára aldri þarf ekki samþykki forsjáraðila fyrir breytingu nafns í Innu.

Ef nafnabreyting á aðeins við um Innu þarf að rjúfa tengslin við gagnagrunn Þjóðskrár Íslands. Þetta þýðir að breytingar á upplýsingum um viðkomandi nemanda hjá þjóðskrá uppfærast ekki í Innu. Þetta á við allar upplýsingar, þ.m.t. nafnabreytingar og lögheimilisflutninga. Af þessari ástæðu eru nemendur, sem breytt hafa nafni sínu í Innu, beðnir um að láta skólann vita af lögheimilisflutningum og öðrum uppfærslum sem venjulega uppfærast í gegnum Þjóðskrá. Þegar nemandi hefur framkvæmt viðeigandi breytingar í Þjóðskrá og er sáttur við upplýsingarnar sem gagnagrunnurinn birtir þarf að láta skólann vita svo hægt sé að tengja kerfin aftur saman. Þessu tengt er mikilvægt að hafa í huga að þegar stúdentsskírteini eru búin til þá les Inna nöfnin úr þjóðskrá.

Helga Jóhannsdóttir konrektor tekur á móti beiðnum um nafnabreytingar í Innu og fylgir þeim eftir. Netfang hennar er helgaj@mh.isKaren Ástudóttir Kristjánsdóttir er jafnréttis- og samskiptaráðgjafi í MH. Netfang hennar er karen@mh.is. Nemendum býðst að koma til hennar ef þeir eru með vangaveltur eða hugleiðingar í tengslum við nafnabreytingar á grundvelli kynvitundar eða kyntjáningar.

Síðast uppfært: 05. desember 2024