Staða áfanga:
Undanfari 3. þreps áfanga í sálfræði (nemendur velja einn af eftirfarandi áföngum: SÁLF2BT05, SÁLF2BÞ05 eða SÁLF2BÍ05).
Stutt lýsing á efni áfangans:
Í áfanganum fá nemendur kynningu á taugakerfinu, með sérstakri áherslu á miðtaugakerfið. Farið er yfir byggingu taugafrumna, taugaboð, taugaboðefni, byggingu og þróun heilans, ólíka virkni heilahvelanna og samspil taugakerfisins og sálarlífsins. Fjallað er sérstaklega um geðraskanir og áhrif vímuefnanotkunar á taugakerfið. Að auki er fjallað um sjónskynjun, svo sem líffræði augans, hvernig unnið er úr sjónáreitum í heilanum, dýptarskynjun og litaskynjun. Einnig er fjallað um svefn, þær lífeðlislegu breytingar sem verða á líkamsstarfseminni í svefni, tilgang svefns og atriði/sjúkdóma sem trufla getu fólks til þess að sofa.
Nokkur lykilhugtök áfangans:
Taugafrumur, boðefni, taugaboð, taugamót, vímuefni, geðraskanir, þróun, heilinn, augað, sjónskynjun, skynvillur, svefn, draumar, svefnrannsóknir, svefnraskanir.
Námsmat:
Tímaverkefni, tímapróf, tilraunaskýrsla, rannsóknarritgerð og lokapróf.