Hekla Martinsdóttir Kollmar (t.h.) dúx og Ragnheiður M. Benediktsdóttir (t.v.) semidúx ásamt rektor skólans.
Í dag voru brautskráðir 116 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af fjórum námsbrautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 80 nemendur, 22 af náttúrufræðibraut, 11 af félagsfræðabraut og 3 af málabraut. Brautskráningin fór fram í samræmi við sóttvarnarreglur. Nemendur gengu í 10 manna hópum úr kennslustofum inn á Miklagarð til að taka á móti skírteinum. Athöfninni var streymt svo að fólk heima í stofu gæti horft á.
Tveir nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn var yfir 9,00. Hekla Martinsdóttir Kollmar var dúx skólans. Hún útskrifaðist af opinni braut með 9,33 í meðaleinkunn. Hekla hlaut einnig verðlaun fyrir ágætan námsárangur í frönsku og íslensku. Semidúx var Ragnheiður M. Benediktsdóttir sem útskrifaðist af opinni braut með 9,24 í meðaleinkunn. Hún hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í dönsku og íslensku. Þess má geta að dúx og semidúx voru með íslensku sem fyrstu kjörgrein á opinni braut.
Aðrir sem hlutu verðlaun voru:
Eygló Rut Hákonardóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur félagsgreinum.
Maia Snorradóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur í spænsku.
Ragnheiður Helga Guðjónsdóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur í líffræði.
Sylvía Frans Skúladóttir hlaut verðlaun fyrir ágætan námsárangur í þýsku og jarðfræði.
Ávörp fyrir hönd nýstúdenta fluttu þau Jökull Ingi Þorvaldsson og Móeiður Una Ingimarsdóttir. Nýstúdentar fluttu tónlist undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar.
Myndir og fréttir frá athöfninni er að finna inni á facebooksíðu MH.
Við óskum öllum gleðilegra jóla og nýstúdentum til hamingju með áfangann.