Rektor skólans ásamt Jakobi Bjarna Ingasyni dúx skólans og Helgu Þórdísi Benediktsdóttur semidúx
Brautskráðir voru 82 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af fjórum námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 59 nemendur, 10 af náttúrufræðibraut, 10 af félagsfræðabraut og 4 af málabraut. Alls voru 4 nemendur brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Jakob Bjarni Ingason, stúdent af félagsfræðabraut, með 9,63 í meðaleinkunn. Semidúx var Helga Þórdís Benediktsdóttir sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut með 9,49 í meðaleinkunn. Helga Þórdís hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í eðlisfræði og spænsku auk viðurkenningar fyrir ágætan námsárangur í stærðfræði frá Íslenska stærðfræðafélaginu.
Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Elsa Sóllilja Valdimarsdóttir og Gríma Valsdóttir. Í kveðjuávarpi rektors minnti hann nýstúdenta á að tileinka sér ástríðu til að mennta sig og læra um nýja hluti, ekki láta staðar numið hér við brautskráningu í MH því tækifærin væru óþrjótandi. Hann minnti jafnframt nýstúdenta á að festast ekki í fortíð eða framtíð en koma þó auga á tækifærin sem þeim gefast í núinu til að búa í haginn fyrir framtíðina.
Kór skólans undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar gegndi stóru hlutverki við athöfnina og flutti nokkur verk auk þess sem nokkrir kórfélagar og nýstúdentar fluttu tónlist, m.a. verkið Sjáumst aftur en Þórhildur Þorsteinsdóttir MH-ingur lék undir á kontrabassa. Tómas Vigur Magnússon nýstúdent lék á fiðlu og Jökull Jónsson spilaði á píanó er þeir fluttu lagstúf úr kvikmyndinni Cinema Paradiso eftir Ennio Morricone.