Brautskráning Menntaskólans við Hamrahlíð 20. desember 2024

Heiða Rachel Wilkins dúx (til vinstri), Steinn rektor og Eydís Magnea Friðriksdóttir semidúx.
Heiða Rachel Wilkins dúx (til vinstri), Steinn rektor og Eydís Magnea Friðriksdóttir semidúx.

Brautskráðir voru 65 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af fimm námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 43 nemendur, 15 af náttúrufræðibraut, fimm af félagsfræðabraut, einn af málabraut og einn af listmenntabraut en af henni var nú útskrifað í fyrsta skipti. Að þessu sinni var dúx skólans Heiða Rachel Wilkins, stúdent af náttúrufræðibraut, með 9,70 í meðaleinkunn. Heiða Rachel hlaut jafnframt viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku, líffræði og efnafræði. Semidúx var Eydís Magnea Friðriksdóttir sem útskrifaðist af opinni braut með 8,85 í meðaleinkunn.

Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Emma Davidsdóttir og Víf Ásdísar Svansbur. Í kveðjuávarpi rektors minnti hann nýstúdenta á að hafa samkennd og kærleik að leiðarljósi í lífinu, vera til staðar og fylgjast með því sem er að gerast í kringum þau og vera tilbúin að stökkva inn í aðstæður þegar einhver þarf á þeim að halda.

Kór skólans undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar gegndi stóru hlutverki við athöfnina og flutti nokkur verk auk þess sem nokkrir kórfélagar og nýstúdentar fluttu tónlist.