Þann 21. desember var brautskráður 181 stúdent frá skólanum af sex námsbrautum. Þrír nemendur luku námi af tveimur brautum og flestir brautskráðust af opinni stúdentsbraut eða 70 stúdentar . Dúxar skólans að þessu sinni voru tveir, þ.e. Sigrún Rósa Hrólfsdóttir og Kári Steinn Aðalsteinsson sem voru með 9,50 í meðaleinkunn. Alls voru brautskráðir 9 nemendur með ágætiseinkunn, þ.e. yfir 9,0 í meðaleinkunn. Brautskráningarhópurinn að þessu sinni er sá fjölmennasti um jól í 51 árs sögu skólans. Á almanaksárinu 2017 útskrifaði skólinn alls 333 nemendur á 8 námsbrautum.
Fjöldi stúdenta með sérhæfingu í tónlist var að útskrifast að þessu sinni og spiluðu m.a. Klara Rosatti nýstúdent og Herdís Ágústa Linnet tónlist fyrir gesti áður en athöfnin hófst. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð söng á athöfninni undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar auk þess sem nýstúdentar í kórnum fluttu tónlist og Ingibjörg Ragnheiður Linnet nýstúdent lék á trompet.