MH skartar sínu fegursta í íslenskri náttúru
Í dag 16. september er Dagur íslenskrar náttúru. Við í MH byrjuðum daginn á því að hugleiða ýmislegt um náttúruna og umhverfi okkar, skoða myndir af náttúru landsins, flóru og fánu. Á Íslandi var byrjað að halda upp á Dag íslenskrar náttúru 16. sept. 2010 að tillögu Svandísar Svavarsdóttur þáverandi umhverfisráðherra. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og stofnaður til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og öllum þeim sem lagt hafa sitt af mörkum til fræðslu og verndar um íslenska náttúru. Síðan þá hefur 16. september verið haldinn hátíðlegur ár hvert og erum við í MH að taka þátt í því í dag. Áherslur okkar eru nærumhverfið okkar í MH og að flokka rusl sem frá okkur fellur á rétta staði. Flokkunartunnur eru á Miðgarði og Matgarði og vonum við að dagurinn í dag verði góður dagur til að flokka rétt.