Nú er unnið að því að breyta Miðgarði í prófsal - munið að þetta er bara sami gamli góði Miðgarður.
Lokaprófin hefjast mánudaginn 4. desember skv. próftöflu. Fyrstu prófin eru enska og heimspeki og svo koma fögin koll af kolli. Nemendur sjá sína eigin próftöflu í Innu og þar kemur líka fram klukkan hvað prófin byrja. Passið vel upp á að lesa þetta vel svo þið missið ekki af prófi. Allir nemendur fengu tölvupóst í dag frá prófstjóra þar sem farið er yfir helstu atriði varðandi próftökur í MH. Gangi ykkur sem best og munið að huga vel að hreyfingu, næringu og svefni á meðan á prófatímabili stendur.
Í pósti prófstjóra er m.a. talað um að það er nauðsynlegt að mæta með skilríki með mynd í prófið. Ef þið eigið ekki skilríki af því tagi má notast við rafræn skilríki í undantekningartilvikum. Þar sem ekki má vera með síma á sér í prófinu er það þó ekki mjög handhæg leið. Við bendum á að hægt er að fara til námsráðgjafa, sýna þeim skilríki (t.d. passa eða rafræn skilríki) og fá þar vottað útprent úr Innunni ykkar – með undirskrift og stimpli skólans. Alger skilyrði til að þetta plagg sé tekið gilt sem skilríki í prófi er að það sé skýr andlitsmynd af nemanda á Innu. Sjá nánar í pósti prófstjóra.