Lárus H. Bjarnason rektor skrifar:
Nú er komið að leiðarlokum öldungadeildar Menntaskólans við Hamrahlíð. Ákveðið hefur verið að leggja deildina niður um
áramótin 2014 – 2015. Ástæðurnar eru annars vegar sífellt þverrandi aðsókn og hins vegar nýleg ákvörðun
yfirvalda í tengslum við fjárlagagerð næsta árs um að leggja af fjárveitingar til þeirra sem leggja stund á nám til
stúdentsprófs og hafa náð 25 ára aldri. Með þessu er rekstrargrundvöllur kvöldnámsins í MH algerlega brostinn og skólanum er
nauðugur einn kostur að hætta þeirri starfsemi. Stjórnendum MH þykir miður gangvart núverandi nemendum deildarinnar að þurfa að tilkynna
þetta með svo knöppum fyrirvara. Ekki er útilokað að unnt verði að greiða úr málum sumra með því að bjóða
þeim setu í einstaka áföngum dagskólans á komandi vorönn.
Öldungadeild MH var komið á laggirnar í janúar 1972 og hófst kennslan 17. janúar það ár. Þetta var fyrsta tilraun íslenska
skólakerfisins til þess að bjóða fullorðnu fólki upp á aðra leið til stúdentspófs en þá eina að vera við
hlið unglinganna í hefðbundu 4 ára menntaskólanámi sem stundað var á daginn. Frumkvæðið átti Guðmundur Arnlaugsson
þáverandi rektor MH sem fékk heimild ráðherra og ráðuneytisstjóra menntamála til þess að gerð yrði tilraun með, eins og
sagði gamalli auglýsingu, … námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að ljúka stúdentsprófi án setu í
menntaskóla…. Guðmundur sagðist sjálfur hafa gert ráð fyrir 50-60 manns en reyndin varð sú að hátt á þriðja
hundrað brugðust við auglýsingum skólans. Þessa fyrstu önn voru kenndir byrjunaráfangar í íslensku, dönsku, ensku, þýsku,
efnafræði og stærðfræði. Sumir hóparnir voru gríðarlega stórir, hátt í 100 manns, og fór þá kennslan fram
á Miklagarði, hátíðarsal skólans. Viðhorfið var öðrum þræði að skólinn væri fyrst og fremst að
aðstoða við sjálfsnám sbr. þessa stóru hópa og það að kennslustundir voru helmingi færri en í dagskólanum.
Öldungadeildin festist fjótlega í sessi, þar fjölgaði ört jafnframt því sem nýjar námsgreinar og áfangar
bættust við og hópar urðu af þeirri stærð að unnt var að nota venjulegar kennslustofur. Fyrstu stúdentar öldungadeildar, 8 talsins, voru
brautskráðir vorið 1974 eftir aðeins 5 anna nám. Síðan þá hafa brautskráðst úr deildinni hátt á annað
þúsund stúdenta á ýmsum aldri, allt frá liðlega tvítugum upp í 76 ára. Í fyrstu var aldurstakmark inn í
öldungadeildina 21 ár og fyrir kom að kennarinn í hópnum var kannski sá sem minnsta lífsreynslu hafði af öllum í skólastofunni.
Þetta skýrist af því að fyrr á árum var í deildinni fjöldi fólks sem ekki hafði haft aðstæður til þess að
ganga menntaveginn á unglingsárum. Með tilkomu öldungadeildarinnar fékk það síðbúið tækifæri og kennarar minnast margra
fyrri tíðar öldunga fyrir brennandi áhuga og góðar námsgáfur.Þegar fjölmennast var í öldungadeildinni á 9.
áratugunum komst nemendafjöldi yfir 700. Á árunum kringum aldamótin voru nálægt 500 nemendur í deildinni hverju sinni en fljótlega
eftir það fækkaði nemendum smám saman og voru t.d. liðlega 200 á árunum 2006 – 2011. Nú undir lokin, haustið 2014, eru nemendur
aðeins taldir í tugum í stað hundraða áður. Nærtækt er að ætla að ýmsir möguleikar á fjarnámi
innan framhaldsskólakerfisins, háskólabrýr með námslánamöguleika og stóraukið framboð ýmiss konar námskeiða hafi
dregið verulega úr aðsókninni síðustu ár en vissulega hefur öldungadeildin um áratuga verið skeið mikilvægur þáttur
í starfsemi skólans. Að leiðarlokum skal tekið undir orð Eyglóar Eyjólfsdóttur fyrrum kennara og konrektors MH í blaðaviðtali 2007
þar sem hún kvað öldungadeildir framhaldsskóla „...hafa framar öðru stuðlað að auknu aðgengi og jafnrétti til náms og eiga
skilið að hljóta veglegan sess í skólasögu okkar.“