Auga, listaverk Ólafar Nordal.
Mörg merk listaverk prýða húsakynni Menntaskólans við Hamrahlíð og þann 7. maí sl. jókst enn við safnið. Það er verkið Auga eftir Ólöfu Nordal sem var afhjúpað við stutta en fallega athöfn í vesturanddyri skólans.
Stundin hófst á því að félagar úr kór skólans sungu tvö lög og því næst hélt Ólöf stutta tölu þar sem hún lýsti hugmyndinni að baki verkinu og þakkaði þeim sem komu að því að gera það að veruleika. Ferlið sagði hún að hefði tekið mörg ár og að margir hefðu lagt hönd á plóg.
Verkið hefur sterka tengingu við norræna goðafræði. Texti úr Gylfaginningu, þar sem byggingarefnum fjötursins Gleipnis er lýst, speglast í kúptu gleri Augans. Ekkert þessara byggingarefna er til sem skilgreint efni og að mati Ólafar er þetta einmitt „efniviðurinn sem vísindi og listir nýta til að finna nýjar lendur og hulda heima.“ Ólöf minnti viðstadda einnig á „að Óðinn þurfti að fórna auga sínu fyrir vísindin úr Mímisbrunni því fyrir speki og mannvit þarf að færa fórnir.“
Auga stendur í gryfju í vesturanddyri skólans sem arkitekt hússins, Skarphéðinn Jóhannsson, ætlaði undir innijurtir. Hún átti að vera frátekinn reitur til að rækta. Úr því varð ekki og því hefur rýmið staðið autt í meira en hálfa öld. „Ég ákvað að taka upp þráðinn þar sem arkitektinn sleppti og rækta í gróðurreitnum æsku landsins með nægu tæru vatni og dagsljósabirtu,“ sagði Ólöf og bauð síðan kórfélögum að opna verkið, fjarlægja lok þess og bergja á vatninu sem upp úr því streymir.