02.06.2016
Þorgerður Ingólfsdóttir er einn af fimm kennurum á öllum skólastigum sem Háskóli Íslands veitti viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf.Á heimasíðu Háskóla Íslands segir: Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti fimm kennurum viðurkenningar
fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands
miðvikudaginn 1. júní. Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins
Hafðu áhrif sem Menntavísindasvið stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst
almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni
hafduahrif.is.
Sögum þjóðþekktra einstaklinga var safnað á vef átaksins og í stuttum
myndböndum sögðu þeir frá kennurum sem hafa haft áhrif á þá. Tilgangur
átaksins var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu
áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á
einstaklinga og samfélagið.
Viðtökurnar voru afar góðar en nærri 800 manns tóku þátt í átakinu og
tilnefndu 350 kennara á öllum skólastigum. Sérstök valnefnd, skipuð
sérfræðingum Menntavísindasviðs, fór yfir tilnefningarnar samkvæmt
ákveðnum viðmiðum. Niðurstaðan var sú að veita fimm framúrskarandi
kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir
framlag þeirra til kennslu. Til hamingju Þorgerður og við öll!