Guðrún Sunna Jónsdóttir dúx skólans, rektor og semidúxinn Eyja Camille P Bonthonneau.
Brautskráðir voru 126 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sjö námsbrautum, þ.a. tveir stúdentar sem luku námi af tveimur brautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 43 nemendur, 34 af náttúrufræðibraut, 19 af IB-braut, 14 af málabraut, 10 af félagsfræðabraut, 4 af listdansbraut og 2 með framhaldsskólapróf.
Átta nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Guðrún Sunna Jónsdóttir nemandi á náttúrufræðibraut með framúrskarandi árangur, þ.e. 9,83 en hún lauk 243 einingum. Guðrún Sunna hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í jarðfræði, líffræði og spænsku. Semidúx var Eyja Camille P Bonthonneau sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut með 9,49 í meðaleinkunn en hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í stærðfæði frá Stærðfræðifélagi Íslands.
Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Laufey Ósk og Guðni Thorlacius. Auk þess fluttu ávörp Bolli Héðinsson fulltrúi 45 ára stúdenta og fulltrúar 40 ára stúdenta, þeir Runólfur Pálsson og Hallgrímur Helgason, sem færðu skólanum að gjöf mynd gerða af Hallgrími sjálfum. Brynhildur Björnsdóttir formaður Nemenda- og hollvinasamtaka MH flutti ávarp og minnti á mikilvægi samtakanna.
Í kveðju rektors, Steins Jóhannssonar, til nýstúdenta hvatti hann þá m.a. til að hugsa ætíð jákvætt og einbeita sér að núinu. Að vera óhrædd við að fara inn á nýjar brautir og marka sér sérstöðu, m.ö.o. vera frumkvöðlar og vera viðbúin að þurfa stundum fleiri en eina tilraun til að láta hlutina ganga upp.
Kór skólans var í stóru hlutverki undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar og flutti nokkur verk auk þess sem aðrir nemendur og nýstúdentar fluttu tónlist.