Í kjölfar þess að nöfn nokkurra nemenda við MH voru rituð á spegla og víðar á salerni skólans þann 3. október síðastliðinn og þau ýmist beint eða óbeint tengd kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, bárust skólanum kvartanir um einelti frá nemendum sem töldu að nöfn þeirra hefðu að ósekju verið rituð þar eða að öðru leyti verið tengd umfjölluninni. Skólinn vísaði málunum til ráðgjafahóps á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins sem settur var á laggirnar til þess að skoða slík mál.
Meðferð málanna hjá ráðgjafahópnum er nú lokið eða á lokametrunum. Við ítarlega skoðun hjá ráðgjafahópnum komu í sumum tilvikum engar skýringar eða upplýsingar fram um ástæðu þess að nöfn nemenda voru rituð á speglana eða þau með öðrum hætti tengd umfjölluninni. Í þeim tilvikum bárust heldur engar kvartanir yfir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi viðkomandi nemenda. Sem dæmi má nefna að sú saga að í skólanum sé tiltekinn nemandi sem hafi nauðgað litlu frænku sinni, hefur ekki fengið neina stoð þrátt fyrir ítarlega könnun ráðgjafahópsins. Fór sú saga fyrst á flug þegar nemandinn stundaði nám í öðrum skóla og endurtók sig í MH.
Niðurstaða ráðgjafahópsins í þeim málum sem tilkynnt voru var sú að nemendur hafi orðið fyrir einelti og útilokun við það að nöfn komu fram með áðurgreindum hætti eða nöfn þeirra tengd umfjölluninni. Nafnritunin fór í mikla dreifingu innan og utan skólans.
MH ítrekar að í kjölfar þessara mála samþykkti skólinn að verða fyrstur til að innleiða nýjar áætlanir, í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema, sem snerta hvoru tveggja kynferðislega áreitni og ofbeldi sem og einelti. Stendur sú vinna yfir. Eru nemendur hvattir til að nýta þá ferla sem til staðar eru og tilkynna um mál ef upp koma innan skólans, þ.e. með því að leita til starfsfólks MH eða tilkynna í gegnum tilkynningahnapp á heimasíðu skólans. Skólinn ítrekar að hann stendur með öllum þolendum ofbeldis og eineltis, sama af hvaða toga slík mál kunna að vera.