Hjólaskýli MH
Í skólanum er starfandi umhverfisnefnd, skipuð starfsfólki og nemendum. Hún vinnur með stjórnendum að
því að skólinn verði Grænfánaskóli fyrir afmælisárið 2016. Meðal þess sem hefur áunnist
er bygging hjólaskýlis við skólann vorið 2014 og uppsetning og kynning á sorpflokkunarkerfi
veturinn 20142015. Haustið 2015 hófst svo sérstakt átak til að hvetja nemendur til að taka með
sér margnota ílát fyrir graut, nesti, kaffi og te. Hugmyndir að breytingum
kvikna margar hverjar á skólaþingi á Lagningardögum, en árlega koma þar saman nemendur og starfsfólk til að ræða hvernig megi bæta skólann. Af hugmyndum um umhverfismál eru nokkrar valdar sem leiðarstef umhverfisnefndar hverju sinni.Nemendur og starfsfólk eru ávallt hvatt til þess að nota umhverfisvæna
ferðamáta sem gjarnan hefur í för með sér aukna hreyfingu svo sem að hjóla, ganga eða taka strætó. Þannig tengist verkefnið einnig heilsueflandi skóla.Finna má upplýsingar um það sem er á döfinni hjá
umhverfisnefnd á fésbókarvegg nefndarinnar. Landvernd stýrir Grænfána-verkefninu á Íslandi og fylgist með
framförum skólans í umhverfismálum. Fyrir hönd umhverfisnefndar, Bjarnheiður.