Í dag halda kórarnir í Hamrahlíð upp á prófalok og sumarkomu með skemmtun í
hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Þetta er hið árlega Vorvítamín, sem kórarnir bjóða
til.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Kórfélagar, nú í vor rúmlega 100 talsins, halda tvenna tónleika, kl. 14 og kl. 16. Efnisskrár
tónleikanna eiga að vekja með öllum vorhug og sumargleði, þar er að finna blöndu gamalla gersema og nýrra. Kórarnir flytja
m.a.tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson, Hjálmar H. Ragnarsson, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal, Jón Þórarinsson, Misti
Þorkelsdóttur og Snorra S. Birgisson. Einnig verða sungin sumar- og ættjarðarlög og vonast er til að allir gestir
taki undir með kórunum.
Milli tónleika verður kaffisala og ýmis skemmtiatriði kórfélaga, hljóðfæraleikur, ævintýraheimur fyrir
krakka, bangsaspítali, vísindahorn, kennsla í salsa, heilsuhorn, leyniatriði og fl.
Þá verða seld sumarblóm og ágóði af sölu rennur í ferðasjóð Hamrahlíðarkóranna. Nú í
sumar verður Hamrahlíðarkórinn fulltrúi Íslands á Aberdeen International Youth Festival sem er eina
alþjóðlega listahátíðin í Evrópu þar sem flytjendur eru allir ungt fólk.
Fögnum björtum dögum og köllum á hlýindin með kórunum í Hamrahlíð í dag.