21.04.2023
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Hvernig væri að skella sér í jógatíma í dag kl. 13:00 í íþróttahúsi MH í boði Indverska sendiráðsins? Þið eruð öll velkomin! Það þarf að skrá sig með því að skanna QR kóðann á myndinni.
19.04.2023
Í gær 18. apríl tóku nokkrir nemendur á fjölnámsbraut MH þátt í hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna. Keppnin var haldin í Tækniskólanum og tóku 14 skólar þátt. Meðal dómara var Haffi Haff og tók hann einnig tvö söngatriði. Úrslitin urðu svo þau að MH sigraði - til hamingju MH. Snævar Örn Kristmannson lék á gítar og á meðan gekk glærusýning með myndlistaverkum eftir nokkra nemendur á brautinni. Miklir hæfileikar voru þarna á ferð og listamenn framtíðarinnar að stíga sín fyrstu skref.
17.04.2023
Á morgun, þriðjudaginn 18. apríl, verður fyrsta kynning fyrir 10. bekkinga sem misstu af opnu húsi 22. mars. Þar munu starfs- og námsráðgjafar, auk nemenda úr skólanum, taka á móti forvitnum 10. bekkingum og sýna þeim skólann og segja frá því sem við höfum upp á að bjóða. Fullt er á kynninguna í dag, en önnur kynning verður mánudaginn 24. apríl. Hér er hægt að skrá sig á kynninguna 24. apríl. Hægt er að skoða kynningarefni um MH hér á heimasíðunni og skemmtilegt myndband sem sýnir húsnæðið í MH séð í gegnum Minecraft gleraugu.
13.04.2023
Söngkeppni framhaldsskólanna var 1. apríl þar sem tónlistarfólk úr framhaldsskólum landsins steig á stokk og sýndi ótrúlega sönghæfileika. Það er gaman að segja frá því að fyrir okkar hönd keppti Erla Hlín Guðmundsdóttir og landaði hún öðru sætinu í keppninni. Til hamingju með það. Við óskum einnig Fjölbrautarskólanum í Garðabæ til hamingju með sigurinn og Menntaskólanum í tónlist með þriðja sætið. Endilega skoðið upptöku af túlkun Erlu Hlínar á laginu Litli tónlistarmaðurinn.
12.04.2023
Nýlega fóru fram úrslit í efnafræðikeppninni 2023 og átti MH tvo þátttakendur sem urðu í fjórum efstu sætunum. Jón Hilmir Haraldsson varð í öðru sæti og Jón Halldór Gunnarsson varð í fjórða sæti. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn en þess má geta að fjórum stigahæstu keppendunum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu og þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 55. Alþjóðlegu ólympíukeppninni (IChO) sem haldin verður í Zürich í Sviss 16.-25. júlí og í 6. Norrænu efnafræðikeppninni sem verður haldin í Danmörku dagana fyrir IChO.
23.03.2023
Takk öll sem kíktuð við hjá okkur á opnu húsi í gær. Það var mjög gaman að sjá svona marga og við nutum þess að sýna ykkur hvað MH hefur upp á bjóða. Takk fyrir að koma. Til að kynna sér skólann enn frekar þá eru upplýsingar hér á heimasíðunni undir hnappnum Kynning á MH.
21.03.2023
MH býður 10. bekkingum, foreldrum þeirra og aðstandendum, á opið hús miðvikudaginn 22. mars milli kl. 17:00 og 18:30. Kynningar á námsframboði skólans verða á Miklagarði, Miðgarði og í einstaka stofum. Kynningar á félagslífi skólans, ráðum og nefndum, verða á Matgarði og einnig munu nemendur skólans bjóða upp á leiðsögn um skólann. Bókasafnið verður opið og hægt að skoða aðstöðuna þar. Kórinn mun taka lagið og einnig verður boðið upp á kleinur í tilefni dagsins.
20.03.2023
Frönskukeppnin er haldin árlega af Félagi frönskukennara, Alliance Francaise og franska sendiráðinu fyrir nemendur í framhaldsskólum.
Að þessu sinni unnu nemendur MH til fyrstu og þriðju verðlauna. Heiða Rachel Wilkins hlaut 1. verðlaun og Ollie Sánchez-Brunete og Kristjana Ellen Úlfarsdóttir hlutu 3. verðlaun og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Nemendurnir gerðu myndband um hvað Frakkland, franska og frönsk áhrif í heiminum táknuðu fyrir þau. Myndböndin þóttu mjög lifandi og skemmtileg og nemendur sýndu vel hvað þau eru hugmyndarík og góð í frönsku.
17.03.2023
Umsóknartímabil fyrir nemendur sem eru að koma beint úr grunnskóla hefst mánudaginn 20. mars og stendur til og með 8. júní. Nemendur sækja um á vef Menntamálastofnunar. Í MH er hægt að sækja um á félagsfræðabraut, náttúrufræðibraut, málabraut, opinni braut, listdansbraut, IB braut og nýrri braut sem heitir listmenntabraut. Nánar má lesa um allar brautirnar hér á heimasíðunni og einnig verður góður aðgangur að kennurum, náms- og starfsráðgjöfum, nemendum og stjórnendum á opnu húsi sem verður miðvikudaginn 22. mars milli kl. 17:00 og 18:30. Einnig er tækifæri til að hitta fulltrúa okkar í Laugardalshöll á Mín framtíð sem stendur yfir þessa dagana.
15.03.2023
Próftafla vorannar 2023 hefur verið birt nemendum í Innu og á heimasíðunni. Prófstjóri hefur einnig sent öllum nemendum póst varðandi prófin.