03.03.2021
MH tekur þátt í verkefninu Græn skref. Það er skipulagt fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Verkefninu er skipt í fimm skref. Um miðjan febrúar náði skólinn að stíga fyrsta skrefið þegar starfsmaður Umhverfisstofnunar tók út þær aðgerðir sem tilgreindar eru í gátlista fyrsta skrefs. Viðurkenningarskjal barst svo í hús í vikunni því til staðfestingar. Þegar er hafist handa við að uppfylla kröfur annars skrefs en skólinn stefnir að því að ljúka öllum skrefunum fimm á árinu.
02.03.2021
Við viljum minna á leiðbeiningar Almannavarna um hvernig eigi að bregðast við stórum jarðskjálftum.
Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað:
● Haltu kyrru fyrir
● Farðu undir borð eða önnur sterkbyggð húsgögn og haltu þér í
● Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða hurðarop við burðarvegg
● Verðu höfuð þitt og andlit
● Haltu þig frá gluggum
● Láttu vita af þér þegar jarðskjálftinn hættir
26.02.2021
Í dag opnar fyrir valið í Innu og nemendur geta valið áfangana sem þeir stefna á að taka næsta haust. Mikilvægt er að velja rétt og skoða vel hvaða áfanga þarf að taka á þeirri braut sem nemendur eru á. Nánari upplýsingar um valið er að finna undir valhnappnum á heimasíðunni. Þar er t.d. hægt að skoða lista yfir alla áfanga sem eru í boði, myndræna framsetningu á valáföngum sem eru í boði og einnig leiðbeiningar um hvað þarf að hafa í huga þegar valið er. Valinu lýkur mánudaginn 8. mars.
25.02.2021
MH hefur opnað aftur eftir að skólanum var lokað í kjölfar sprengjuhótunar sem barst í nótt. Brugðist var við henni í samræmi við viðbragðsáætlun skólans. Hótunin reyndist gabb og er sveit ríkislögreglustjóra búin að fara yfir húsnæðið og hefur aflétt lokuninni. Kennsla hefst kl. 12:55 í dag og sjáumst við vonandi hress í skólanum.
_________________
Last night a bomb threat was sent through email to the school. The threat was taken seriously and actions are taken according to law enforcement authorities. The school premises have been secured and classes will start today at 12:55.
24.02.2021
Í dag er fyrsta skólakynningin fyrir nemendur í 10. bekk sem áhuga hafa á að kynna sér MH. Námsráðgjafar munu taka á móti nemendum sem hafa pantað tíma og kynna skólann. Í tilefni af þessum kynningum erum við búin að setja saman kynningarsíðu þar sem ýmislegt skemmtilegt er í boði til að allir fái innsýn í skólann okkar.
22.02.2021
Ákveðið hefur verið að halda samkeppni milli nemenda MH um vegglistaverk á gang milli Norðurkjallara og Undirheima. Nemendur MH eða hópur nemenda getur sent inn skissur af verkum í samkeppnina. Valin verða fjögur verk sem hæfa umhverfinu en í valnefnd verða fulltrúi myndlistarkennara, tveir fulltrúar nemenda og fulltrúi stjórnenda. Skólinn greiðir kostnað vegna efniskaupa, þ.e. málningarkaupa og pensla. Gert er ráð fyrir að verkin á veggina fjóra séu frá mismunandi nemendum/hópum nemenda.
Frestur til að skila inn góðum skissum er til og með 15. mars nk. Stefnt er að því að verkin verði máluð á veggina fyrir annarlok. Hugmyndum skal skila á netfangið rektor@mh.is
19.02.2021
Lagningardögum er lokið og stóðu allir sig með sóma. Margt skemmtilegt var á dagskrá og nemendur nutu þess að vera í skólanum og hittast. Takk öll sem komuð að þessu og gerðuð þetta að veruleika. Góða helgi.
18.02.2021
Lagningardagar eru hafnir og nemendur eru mættir til að taka þátt í dagskránni. Lagningardagaráð, nemendur og starfsfólk bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og vonandi finna allir eitthvað sem þeir geta skemmt sér yfir. Kórinn selur kaffi og með því og matarvagnar mæta fyrir utan skólann. Njótum þess að vera saman í hæfilegri fjarlægð samt. Góða skemmtun
17.02.2021
Lagningardagaráð var að vinna á fullu við að fjölga plássum og bæta við rýmum og fyrirlestrum.
17.02.2021
Til að taka þátt í viðburðum á Lagningardögum þarf að skrá sig fyrirfram. Skráning fer fram á heimasíðu nemendafélagsins og hlekkurinn er einnig undir viðburðir á heimasíðu MH.