Fréttir

Raddprufur í kórinn

Í síðustu viku bauðst nemendum MH að skrá sig í raddprufur fyrir kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Fyrsti dagurinn er í dag og mæta þá þeir sem skráðu sig í mánudagsprufurnar. Á miðvikudaginn verða svo raddprufur fyrir þá sem skráðu sig í miðvikudagsprufurnar. Ef einhver gleymdi að skrá sig þá má sá hinn sami senda Hreiðari Inga kórstjóra póst, fyrir fimmtudaginn, og athuga með tíma í raddprufu. Fyrstu tónleikar kórsins verða á fundi fyrir foreldra nýnema sem verður þriðjudaginn 7. september. Það verður gaman að fá að sjá og heyra í kórnum þá með nýja meðlimi innanborðs.

Fyrsti kennsludagurinn

Við í MH tökum spennt á móti nemendum í dag og hefst skólinn kl. 9:00. Nemendur mæta í stofurnar sínar skv. stundaskrá og byrjar tíminn á stuttri rafrænni skólasetningu rektors. Nýnemar skólans fá sérstaka athygli í dag frá nemendafélaginu-NFMH og verður ýmislegt gert til að bjóða þau velkomin í skólann. Matarvagnar verða á bílaplaninu milli 11:15 og 12:50 þar sem flestir ættu að geta keypt sér eitthvað við hæfi í tilefni dagsins. Það er vegna þeirra sem bílaplanið fyrir framan skrifstofuna er lokað. Ef einhver á eftir að láta laga stundatöfluna sína þá eru námstjórar og áfangastjóri tilbúin að taka á móti breytingum á skrifstofu skólans. Gleðilegt nýtt skólaár.

Sóttvarnarreglur

Þar sem við erum því miður ekki laus við Covid-19 þá þurfum við að ítreka sóttvarnarreglur svo að skólahald getið gengið sem best fyrir sig. Grímuskylda er í skólanum en taka má grímur niður þegar nemendur hafa fengið sér sæti i kennslustofum. Virðum nándarmörk, þ.e. einn metra. Mælt er með að sótthreinsa borð á milli kennslustunda og gæta að persónubundnum sóttvörnum. Borðum í kennslustofum er raðað upp með einum metra á milli nemenda. Kennslustofur verða opnar á milli tíma. Ekki mega fleiri en 200 koma saman í samkomurýmum skólans, t.d. Matgarði, Miðgarði og Norðurkjallara. Forðumst hópamyndanir. Mælt er að með að nota rakningarapp heilbrigðisyfirvalda. Ferðalangar sem eru að koma erlendis frá, verða að fara í skimun innan 48 tíma frá komu. Því má ekki koma í skólann fyrr en niðurstaða úr skimun er ljós.

Framvarðasveit MH

Um 15 MH-ingar unnu í sumar á Suðurlandsbraut við ýmis störf tengd Covid-19. Þau voru t.d. að aðstoða við að blanda bóluefni, unnu við skráningar ýmiskonar, sýnatökur, keyrslur hraðprófa og að svara almennum fyrirspurnum sem komu í gegnum Heilsuvera.is Flestir nemendur voru í EFNA3DL05 í vor og nokkrir voru á IB-1 og IB-2 .

Sóttvarnarreglur

Við stefnum á að hefja skólastarf með hefðbundnum hætti þetta haustið og þurfum að hugsa vel um sóttvarnir. Reglur sem gilda í MH í samræmi við reglugerð heilbrigðisráðherra má lesa hér á heimasíðunni undir Covid-19 hnappnum. Við þurfum öll að gera okkar besta í sóttvörnum og gera það saman.

Byrjun haustannar / beginning of school

Gleðilega önn. Seinna í dag verður Inna opnuð og þá munu stundatöflur birtast hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin. Allar nánari upplýsingar má lesa undir skólinn, tölvupóstar til nemenda. Töflubreytingar hefjast í dag og allir eldri nemendur skólans geta gert töflubreytingar í Innu en aðrir sem eru að hefja nám hjá okkur í fyrsta skipti núna í haust þurfa að koma og hitta námstjóra ef þeir telja sig þurfa töflubreytingar. Nýnemakynning verður 18. ágúst kl. 13:00 eða kl. 14:30. Fyrsti kennsludagur verður 19. ágúst og hefst kl. 9:00. Athugið að lesa vel póstana sem vísað er í hér í fréttinni.

Inna er lokuð hjá öllum nemendum á meðan á stundatöflugerð stendur.

Inna er lokuð hjá öllum nemendum, þó að nemendur hafi greitt skólagjöld, þar sem verið er að vinna í stundatöflugerð. Á fimmtudag eða föstudag munu stundatöflur opnast í Innu hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin, en þangað til er Inna lokuð hjá öllum. Við viljum því minna þau ykkar sem ekki hafa greitt skólagjöldin á að gera það hið fyrsta. Í framhaldinu verður opnað fyrir töflubreytingar hjá eldri nemendum sem voru í MH á síðustu önn. Nýnemar haustsins munu fá póst fyrir lok vikunnar um hvernig þeir þurfa að bera sig að ef þeir þurfa töflubreytingar.

Opnunartími skrifstofu

Þá er haustönn 2021 framundan og við í MH að koma okkur í stellingar. Skrifstofan hefur opnað aftur eftir sumarfrí og er opin frá kl. 8:30 til 12:00 og frá 12:30 til 15:30. Nánari upplýsingar um byrjun haustannar 2021 koma um leið og þær liggja fyrir.

Sumarfrí

Skrifstofan er farin í sumarfrí frá og með 23. júní og opnar aftur mánudaginn 9.ágúst kl. 10:00. Búið er að senda bréf til nýnema, nýrra MH-inga, sem við bjóðum hjartanlega velkomin í skólann. The school office will be closed from the 23rd of June and we will open again on the 9th of August.

Innritun eldri nýnema

Innritun eldri nýnema í MH er lokið og bjóðum við ykkur öll hjartanlega velkomin. Skólagjöldin ættu að birtast í heimabanka á föstudag eða mánudag. Eindaginn er 7. júlí. Nánari upplýsingar voru sendar í tölvupósti í dag. Í dag er síðasti dagur fyrir 10. bekkinga að sækja um skólavist fyrir haustið og verður lokað fyrir umsóknir á miðnætti.