04.04.2014
Samningar við kennara hafa verið undirritaðir og verkfalli þar með aflýst. Skóli hefst því á venjulegum tíma á
mánudagsmorguninn.
02.04.2014
Mánudag og þriðjudag í dymbilviku, 14. og 15. apríl, verður skólinn opinn frá 10:00. Bókasafn, námsráðgjöf,
námstjóraskrifstofa og skrifstofa verða opin til kl. 14:00. Nemendur geta nýtt sér sameiginleg svæði, tölvur og prentara. Hægt er að
sækja um aðgang að skólastofum milli 10:00 og 14:00. Nú er um að gera að nýta tímann vel!
16.03.2014
Nú liggur fyrir að ekki næst að semja við kennara fyrir boðað verkfall 17. mars. Meðan verkfallið varir fellur niður öll kennsla annarra en
fáeinna stundakennara. Eftir sem áður hafa nemendur aðgang að bókasafni og almennum vinnusvæðum.
15.03.2014
MH er sigurvegari í spurningakeppni íslenskra framhaldsskóla, Gettu betur, en liðið fór með sigur af hólmi í viðureign kvöldsins gegn
Borgarholtsskóla.
Þórgnýr, Leifur Geir og Kristinn Már skiluðu langþráðum hljóðnemanum til MH í kvöld.
Vel gert og til hamingju öll!
14.03.2014
Hringt verður út úr tíma kl. 12 í dag 14. mars til fundar á sal. Rektor fer í stuttlega yfir stöðuna vegna verkfalls sem
gæti hafist á mánudag.
13.03.2014
Í dag, 13. mars er dagur líkamsvirðingar. Líkamsvirðing felst í því að bera virðingu fyrir líkama sínum og annarra.
Það þýðir að við hugsum vel um líkamann okkar og hugsum fallega til hans.
Í ár er þessum skilaboðum sérstaklega beint til ungs fólks. Í dag eru 40% stúlkna í kjörþyngd annað hvort að reyna
að léttast eða telja sig þurfa að léttast. Tölfræðilegt samband ríkir milli líkamsþyngdar og lífsánægju
stúlkna. Önnur hver unglingsstúlka á Íslandi fer í megrun og vaxandi fjöldi ungra drengja. Þegar komið er upp í framhaldsskóla
uppfyllir einn af hverjum tíu nemendum greiningarviðmið fyrir átröskun.
Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta eru afleiðingar umhverfisskilyrða sem við höfum skapað börnunum okkar. Þeim þarf
að breyta ef við óskum þeim bjartari framtíðar. Verum ánægð með okkur!
12.03.2014
Miðvikudaginn 12. mars verður opið hús í MH frá kl. 17:00-19:00 fyrir grunnskólanema og forráðamenn
þeirra. Í opnu húsi verður námsframboð, inntökuskilyrði og félagslíf skólans kynnt.
Námstjórar, kennarar, stjórnendur og náms- og
starfsráðgjafar munu sitja fyrir svörum um námsframboð og annað sem gestum liggur á hjarta varðandi nám við
skólann.
Náms-og starfsráðgjafar verða með glærusýningu um brautir skólans og ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem huga
á nám hér í M.H.
Nemendur kynna félagslíf nemenda og NFMH
Glæsilegt bókasafn skólans verður opið gestum og einnig gefst tækifæri til þess að kíkja í hinar ýmsu kennslustofur.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur kl. 18:00
07.03.2014
Skólinn fékk góða heimsókn í dag þegar fiðluleikarinn Midori sem er meðal kunnustu tónlistarmanna heims spilaði á
Miklagarði, hátíðarsal skólans. Ferill hennar spannar ríflega 30 ár en hún vakti heimsathygli þegar hún kom fram með
Fílharmóníusveit New York aðeins ellefu ára gömul. Síðan þá hefur hún verið einn af eftirsóttustu fiðluleikurum
veraldar. Midori sinnir samfélagsstörfum af mikilli elju og óskar eftir því að fá að heimsækja stofnanir, skóla og aðra þá
staði þar sem hún getur kynnt tónlist fyrir gestum og gangandi. Stokkfullur hátíðarsalur hlustaði af þvílíkri innlifun að heyra
hefði mátt saumnál detta meðan Midori spilaði undurvel. Í lok tónleikanna svaraði Midori spurningum úr salnum sem bæði voru
fjölbreyttar og skemmtilegar. Takk fyrir okkur!
07.03.2014
Sjá frétt hér neðar á síðunni með leiðbeiningum og tenglum.
07.03.2014
Nýverið lauk árlegri landskeppni framhaldsskólanema í efnafræði. Að lokinni undankeppni var 15 efstu nemendunum boðið til úrslitakeppni
sem fram fór í Háskóla Íslands. Í þeim hópi voru tveir nemendur frá MH, þau Freyja Björk Dagbjartsdóttir og Atli Freyr
Magnússon, og stóðu þau sig bæði mjög vel. Atli Freyr náði 2. sæti og vann með því rétt til þátttöku
í liði Íslands sem fer á ólympíuleika í efnafræði, en þeir verða haldnir í Hanoi í Víetnam nú í
sumar. Þá varð Freyja Björk í 8. sæti. Til hamingju!