Fréttir

Takk fyrir komuna

Takk öll sem kíktuð við hjá okkur á opnu húsi í gær. Það var mjög gaman að sjá svona marga og við nutum þess að sýna ykkur hvað MH hefur upp á bjóða. Takk fyrir að koma. Til að kynna sér skólann enn frekar þá eru upplýsingar hér á heimasíðunni undir hnappnum Kynning á MH.

Opið hús 22. mars

MH býður 10. bekkingum, foreldrum þeirra og aðstandendum, á opið hús miðvikudaginn 22. mars milli kl. 17:00 og 18:30. Kynningar á námsframboði skólans verða á Miklagarði, Miðgarði og í einstaka stofum. Kynningar á félagslífi skólans, ráðum og nefndum, verða á Matgarði og einnig munu nemendur skólans bjóða upp á leiðsögn um skólann. Bókasafnið verður opið og hægt að skoða aðstöðuna þar. Kórinn mun taka lagið og einnig verður boðið upp á kleinur í tilefni dagsins.

MH-ingar í Frönskukeppni framhaldsskólanna

Frönskukeppnin er haldin árlega af Félagi frönskukennara, Alliance Francaise og franska sendiráðinu fyrir nemendur í framhaldsskólum. Að þessu sinni unnu nemendur MH til fyrstu og þriðju verðlauna. Heiða Rachel Wilkins hlaut 1. verðlaun og Ollie Sánchez-Brunete og Kristjana Ellen Úlfarsdóttir hlutu 3. verðlaun og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Nemendurnir gerðu myndband um hvað Frakkland, franska og frönsk áhrif í heiminum táknuðu fyrir þau. Myndböndin þóttu mjög lifandi og skemmtileg og nemendur sýndu vel hvað þau eru hugmyndarík og góð í frönsku.

Listmenntabraut

Umsóknartímabil fyrir nemendur sem eru að koma beint úr grunnskóla hefst mánudaginn 20. mars og stendur til og með 8. júní. Nemendur sækja um á vef Menntamálastofnunar. Í MH er hægt að sækja um á félagsfræðabraut, náttúrufræðibraut, málabraut, opinni braut, listdansbraut, IB braut og nýrri braut sem heitir listmenntabraut. Nánar má lesa um allar brautirnar hér á heimasíðunni og einnig verður góður aðgangur að kennurum, náms- og starfsráðgjöfum, nemendum og stjórnendum á opnu húsi sem verður miðvikudaginn 22. mars milli kl. 17:00 og 18:30. Einnig er tækifæri til að hitta fulltrúa okkar í Laugardalshöll á Mín framtíð sem stendur yfir þessa dagana. 

Próftafla vorannar

Próftafla vorannar 2023 hefur verið birt nemendum í Innu og á heimasíðunni. Prófstjóri hefur einnig sent öllum nemendum póst varðandi prófin.

Leikfélag MH kynnir söngleikinn „Þú ert hér“

Föstudaginn 17. mars frumsýnir Leikfélag NFMH glænýja íslenska söngleikinn „Þú ert hér“ í Undirheimum í MH. Verkið er frumsamið af leikhóp skólans og var unnið í samsköpun og út frá spuna. Björg Steinunn Gunnarsdóttir og Inga Steinunn Henningsdóttir, sviðshöfundar, listakonur og MH-ingar leikstýra. Í sýningunni fá hæfileikaríkir nemendur að njóta sín á sviði, hvort sem það er að leika, dansa, syngja eða spila tónlist. Leikhópurinn fær lánaða nokkra meðlimi úr Húsbandinu til að flytja tónlistina með leikurunum á sviðinu. Stefnt á að hafa 10 sýningar. Miðasala er á Tix.is.  Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að fara á þessa glæsilegu sýningu.

MH-ingar í forritunarkeppni framhaldsskólanna

Þann 11. mars keppti lið frá MH í forritunarkeppni framhaldsskólanna sem Háskólinn í Reykjavík hélt. Lið MH keppti í svokallaðri Beta-deild og lenti í öðru sæti en liðið skipuðu Karl Ýmir Jóhannesson, Ómar Bessi Ómarsson og Tristan Orri Elefsen og kennari liðsins er Björgvin Friðriksson. Við óskum liðinu innilega til hamingju með árangurinn.

Góður árangur MH-inga í Almennu landskeppninni í efnafræði

22. Almenna landskeppnin í efnafræði fór fram í framhaldsskólum landsins þriðjudaginn 28. febrúar. Alls tóku 103 nemendur þátt, úr sex skólum. Sigurvegari landskeppninnar er Jón Hilmir Haraldsson, nemandi við MH, en hann hlaut 85 stig af 100 mögulegum. Auk þess urðu MH-ingarnir Tómas Böðvarsson í fjórða sæti og Jón Halldór Gunnarsson í áttunda sæti. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn. 13 efstu keppendum er boðið að taka þátt í úrslitakeppni sem verður haldin í Háskóla Íslands helgina 25.-26. mars næstkomandi og óskum við okkar nemendum góðs gengis í þeirri keppni.

Valvika

Þessa dagana eru nemendur að velja áfanga fyrir haustönn 2023. Í boði eru 173 áfangar fyrir allar brautir, fyrir utan 53 áfanga sem eru kenndir á ensku fyrir nemendur á IB braut. Val nemenda er skoðað eftir að valvikunni lýkur og út frá því eru teknar ákvarðanir um hvaða áfangar verða kenndir næsta haust. Það skiptir því miklu máli að velja rétt og velja það sem nemendur ætla sér að taka. Alltaf eru nokkrir nýir áfangar í boði og einnig eru nokkrir áfangar sem eru einungis kenndir á haustin sem og aðrir sem eru einungis kenndir á vorin. 

Áfangakynningar á Mikagarði

Í dag milli kl. 9:00 og 12:00 kynna kennarar áfangaframboð næstu annar. Nemendur eru hvattir til að kíkja við og skoða það sem í boði er.