Fréttir

Norðurkjallari

Norðurkjallari er félagsaðstaða nemenda í MH og þar er hægt að hafa það notalegt í góðra vina hópi og einnig eru haldnar þar ýmsar uppákomur. Stjórn NFMH hverju sinni, hefur umsjón með Norðurkjallara og sér um að halda utanum alla starfsemi sem þar fer fram. Í dag gafst loksins tími til að skrifa undir samning þess efnis. Jórunn Haraldsdóttir forseti nemendafélagsins og Steinn rektor tókust í hendur af þessu tilefni eftir að hafa farið vel og vandlega yfir innihald samningsins. 

Aðstoð við valið

Valvika stendur yfir frá og með 29. september til og með 9. október. Föstudaginn 6. október kl. 12:40 – 13:00 verða umsjónarkennarar eldri nemenda til viðtals í kennslustofum og hvetjum við nemendur til að leita til þeirra. Þar verður hægt að fá aðstoð við valið og svör við spurningum sem brenna á nemendum. Upplýsingar um valið eru á heimasíðunni undir hnappnum Valvika. Þar er t.d. hægt að skoða lista yfir áfanga í boði, myndræna framsetningu á valáföngum vorannar og lista yfir atriði sem gott er að hafa í huga við valið.

Valkynning á Miklagarði

Í dag, föstudag, hefst valvikan formlega með áfangakynningum á Miklagarði. Kennarar og aðrir kynna áfanga sem verða í boði á næstu vorönn og er úrvalið ótrúlegt. Áfangahlaðborðið verður til sýnis milli kl. 9:00 og 12:00 í dag en valvikan stendur yfir til og með mánudeginum 9. október. Listi yfir áfanga sem eru í boði má finna hér undir valhnappnum og þar er einnig að finna kynningar á valáföngum næstu annar og ýmsar gagnlegar upplýsingar þegar kemur að því að velja.

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fer fram á sama tíma í öllum framhaldsskólum landsins, þriðjudaginn 3. október kl. 8:20. Þau sem standa sig vel í forkeppninni fá að taka þátt í úrslitakeppni sem fer fram í mars. Allir framhaldsskólanemendur geta tekið þátt þar sem keppt er í tvennu lagi, nýnemar keppa á neðra stigi, aðrir nemendur keppa á efra stigi.

Brunaæfing

Viðbragðsflýtir MH-inga var prófaður í gær með því að setja í gang brunaæfingu. Brunaæfing er hluti af því að allt starfsfólk og nemendur kynni sér útgönguleiðir út úr skólanum, ef eitthvað óvænt kemur upp á inni í skólanum. Á skólanum eru margir útgangar og hluti af æfingunni er að vita út um hvaða útgang má fara. Söfnunarsvæði skólans er við vesturenda hans og þar tók rektor á móti öllum og hrósaði fyrir vaska útgöngu.

Það er ball í kvöld

Nýnemadansleikur verður í kvöld, 14. september á Hvalasafninu á Granda. Húsið opnar kl. 22:00 og lokar 23:00 og ballinu lýkur kl. 01:00. Miðasala stendur yfir og þurfa allir sem kaupa miða að nálgast armbönd hjá nemendastjórninni á Matgarði. Nánar má lesa um ballið í póstum sem sendir hafa verið út frá félags- og forvarnarfulltrúa skólans og frá NFMH.

Takk fyrir komuna

Foreldrar og forsjáraðilar nýnema haustannar 2023 mættu í MH í gærkvöldi. Rektor tók á móti gestunum og svo var fylgt fyrirfram útgefinni dagskrá sem endaði með kórsöng þar sem nýir kórmeðlimir fengu líka að spreyta sig. Eftir samveru á sal fóru allir í kennslustofur með lífsleiknikennurum og fengu ítarlegri kynningu þar á því sem nýnemar MH eru að gera. Í lokin var boðið upp á kaffi og kleinur og margir gamlir MH-ingar gengu um húsið og rifjuðu upp gamla tíma. Takk fyrir komuna.

Nýnemaferð

Nýnemar í lífsleikniáfanga í MH fara í ferðalag 1. sept. og vegna slæmrar veðurspár verður lagt af stað fyrr en áætlað var í fyrstu. Nánari upplýsingar eru í pósti til nemenda og einnig hér á heimasíðunni.

Mánudagar eru líka grautardagar

Fyrsti hafragrautur haustannar var í boði í dag á Miðgarði. Grauturinn hefur verið í boði síðastliðin 15 ár og gaman að sjá að hann er allaf jafn vinsæll. Til að byrja með var honum ausið í einnota pappaskálar en núna er hann borinn fram í margnota grautarskálum. Grauturinn er í boði alla daga vikunnar og sér matreiðslumeistari starfsfólks um að elda hann og stjórnendateymi skólans sér um að ausa hann. Verði ykkur að góðu og gleðilegan mánudag.

Jafnrétti kynjanna

Í dag fengum við í MH gesti frá Kwansei Gakuin Senior High School í Japan og eru þau hér til að kynna sér jafnrétti kynjanna á Íslandi. Japönskukennari skólans, Yayoi Mizoguchi, tók á móti þeim og Steinn rektor kynnti þeim það helsta sem við erum að gera í MH. Alltaf gaman að fá áhugasama gesti í heimsókn.